Hugbúnaðarfyrirtækið Unity Software hefur sagt upp 1,800 starfsmönnum sem samsvarar um 25% af öllu starfsfólki fyrirtækisins samkvæmt tilkynningu til verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna í gær.
Fyrirtækið, sem var stofnað af Davíð Helgasyni, hefur sagt upp 1,100 starfsmönnum á síðustu tveimur árum en 7,000 starfsmenn voru starfandi hjá fyrirtækinu í maí.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru uppsagnirnar í ársbyrjun vegna vandræða fyrirtækisins síðasta haust er fyrirhugaðar verðbreytingar til viðskiptavina ollu teljandi reiði meðal notenda.
Unity ætlaði sér að rukka notendur og framleiðendur tölvuleikja sem byggðir eru kerfum í hvert sinn sem þeir eru settir upp í nýju símtæki. Viðskiptavinir fyrirtækisins voru afar ósáttir og létu tölvuleikjanotendur reiði sína einnig í ljós á netinu.
Stórir tölvuleikjaframleiðendur borga nú þegar leyfisgjald til Unity fyrir að nota hugbúnað fyrirtækisins.
Hlutur Davíðs metinn á 45 milljarða
Davíð Helgason, sem er fyrrum forstjóri fyrirtækisins, situr enn í stjórn Unity. Davíð á um 8,4 milljón hluti í fyrirtækinu sem samsvarar um 45 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
John Riccitiello, arftaki Davíðs í forstjórastöðunni sagði starfi sínu lausu í október og var James Whitehurst ráðinn forstjóri tímabundið.
Hlutabréf Unity hækkuðu um 3% í gær og hefur gengið hækkað um 20% síðastliðinn mánuð.
Hópuppsögnin var tilkynnt til verðbréfaeftirlitsins eftir lokun markaða í gær en hlutabréfin hafa hækkað um tæp 4% í viðskiptum fyrir lokuðum markaði.