Hug­búnaðar­fyrir­tækið Unity Software hefur sagt upp 1,800 starfs­mönnum sem sam­svarar um 25% af öllu starfs­fólki fyrir­tækisins sam­kvæmt til­kynningu til verð­bréfa­eftir­lits Banda­ríkjanna í gær.

Fyrir­tækið, sem var stofnað af Davíð Helga­syni, hefur sagt upp 1,100 starfs­mönnum á síðustu tveimur árum en 7,000 starfs­menn voru starfandi hjá fyrir­tækinu í maí.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal eru upp­sagnirnar í árs­byrjun vegna vand­ræða fyrir­tækisins síðasta haust er fyrir­hugaðar verð­breytingar til við­skipta­vina ollu teljandi reiði meðal not­enda.

Unity ætlaði sér að rukka not­endur og fram­leið­endur tölvu­leikja sem byggðir eru kerfum í hvert sinn sem þeir eru settir upp í nýju sím­tæki. Við­skipta­vinir fyrir­tækisins voru afar ósáttir og létu tölvu­leikja­not­endur reiði sína einnig í ljós á netinu.

Stórir tölvu­leikja­fram­leið­endur borga nú þegar leyfis­gjald til Unity fyrir að nota hug­búnað fyrir­tækisins.

Hlutur Davíðs metinn á 45 milljarða

Davíð Helga­son, sem er fyrrum for­stjóri fyrirtækisins, situr enn í stjórn Unity. Davíð á um 8,4 milljón hluti í fyrirtækinu sem samsvarar um 45 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

John Ricciti­ello, arf­taki Davíðs í for­stjóra­stöðunni sagði starfi sínu lausu í októ­ber og var James Whitehurst ráðinn for­stjóri tíma­bundið.

Hluta­bréf Unity hækkuðu um 3% í gær og hefur gengið hækkað um 20% síðast­liðinn mánuð.

Hóp­upp­sögnin var til­kynnt til verð­bréfa­eftir­litsins eftir lokun markaða í gær en hluta­bréfin hafa hækkað um tæp 4% í við­skiptum fyrir lokuðum markaði.