Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri Fjármálaeftirlits Seðlabankans, hefur beðist lausnar frá embættinu og mun láta af störfum í byrjun maí. Hún tilkynnti starfsfólki bankans þetta í dag, samkvæmt mbl.is.
Seðlabankinn tilkynnti í síðustu viku um nýtt skipurit en breytingarnar fela í sér fækkun fagsviða sem sinna fjármálaeftirliti úr fjórum í tvö. Seðlabankinn sagði að breytingarnar væru til þess fallnar að styrkja fjármálaeftirlit bankans.
Unnur gegndi starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME) frá árinu 2012 og stöðu varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá ársbyrjun 2020 í kjölfar þess að FME og Seðlabankinn sameinuðust.
Áður en hún tók við starfi forstjóra FME hafði hún starfað í sjö ár hjá bankaeftirliti Seðlabankans og í fimm ár sem sérfræðingur í fjármálaþjónustu hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hún framkvæmdastjóri Fjölgreiðslumiðlunar í tvö ár.
Unnur starfaði einnig sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í sjö ár og sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.