Unn­ur Gunn­ars­dótt­ir, vara­seðlabanka­stjóri Fjár­mála­eft­ir­lits Seðlabank­ans, hef­ur beðist lausn­ar frá embættinu og mun láta af störf­um í byrj­un maí. Hún tilkynnti starfsfólki bankans þetta í dag, samkvæmt mbl.is.

Seðlabankinn tilkynnti í síðustu viku um nýtt skipurit en breytingarnar fela í sér fækkun fagsviða sem sinna fjármálaeftirliti úr fjórum í tvö. Seðlabankinn sagði að breytingarnar væru til þess fallnar að styrkja fjármálaeftirlit bankans.

Unnur gegndi starfi for­stjóra Fjár­mála­eft­ir­lits­ins (FME) frá árinu 2012 og stöðu vara­seðlabanka­stjóra fjár­mála­eft­ir­lits frá árs­byrj­un 2020 í kjöl­far þess að FME og Seðlabankinn sameinuðust.

Áður en hún tók við starfi forstjóra FME hafði hún starfað í sjö ár hjá bankaeftirliti Seðlabankans og í fimm ár sem sérfræðingur í fjármálaþjónustu hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hún framkvæmdastjóri Fjölgreiðslumiðlunar í tvö ár.

Unnur starfaði einnig sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í sjö ár og sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.