Nasdaq Iceland kynnir nýtt uppboðslíkan fyrir First North-vaxtarmarkaðinn, sem tekur gildi 1. apríl 2025.
Kauphöllin hefur verið með nýtt viðskiptakerfi til skoðunar í tæplega tvö ár núna sem annaðhvort valmöguleika eða skyldu við viss skilyrði fyrir hlutabréf skráðra félaga á First North.
Markmið þess er að minnka sveiflur í verði hlutabréfa og stuðla að traustari verðmyndun á mörkuðum þar sem seljanleiki er lítill.
Uppboðslíkanið var fyrst innleitt á First North-vaxtarmörkuðunum í Svíþjóð og Finnlandi árið 2024 og hefur reynst vel í að draga úr verðsveiflum, lækka viðskiptakostnað og auka fjárfestavernd.
Samfelld viðskipti víkja fyrir fyrir fram skilgreindum uppboðum, sem fara fram fimm sinnum á dag: kl. 09:30 (opnunaruppboð), 11:00, 12:30, 14:00 og 15:30 (lokunaruppboð).
Hugsunin er sú að með því muni nást fram betri pörun milli kaup- og sölutilboða en ellegar, þar sem tími gefist til að safna saman nokkrum tilboðum í stað þess að sá sem vill kaupa eða selja á markaðsgengi gangi beint inn í útistandandi tilboð, sem geta verið töluvert langt frá síðasta gengi eins og komið hefur verið inn á.
Fyrirtæki sem færast yfir í uppboðslíkanið
Fyrirtæki á First North-vaxtarmarkaði sem hvorki hafa viðskiptavakt né uppfylla skilyrði um seljanleika flytjast yfir í uppboðslíkanið.
Skilyrði fyrir slíkum flutningi er að verðbil milli kaup- og sölutilboða hafi farið yfir 7% tvo ársfjórðunga í röð.
Mat á þessu verður gert tvisvar á ári, í júlí og janúar, þegar gögn fyrir undanfarna tvo ársfjórðunga eru metin.
Samkvæmt gögnum frá þriðja og fjórða ársfjórðungi 2024 munu viðskipti með hlutabréf Klappa Grænna Lausna, Solid Clouds og Sláturfélags Suðurlands færast yfir í uppboðslíkanið þann 1. apríl nk.
Markmið og væntingar
Með þessu skrefi vonast Nasdaq Iceland til að bæta aðgengi fjárfesta að markaði, draga úr sveiflum og skapa öruggara viðskiptaumhverfi. Uppboðslíkanið tryggir að viðskipti fari fram þegar kaupendur og seljendur ná saman um verð, sem eykur fyrirsjáanleika og lækkar viðskiptakostnað.
Reglubók First North Growth Market hefur verið uppfærð og frekari upplýsingar um uppboðslíkanið má finna í Nasdaq Nordic INET Market Model.
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um uppboðslíkanið um haustið 2023 og er hægt að lesa meira um það hér að neðan.