Nas­daq Iceland kynnir nýtt upp­boðslíkan fyrir First North-vaxtar­markaðinn, sem tekur gildi 1. apríl 2025.

Kaup­höllin hefur verið með nýtt við­skipta­kerfi til skoðunar í tæp­lega tvö ár núna sem annaðhvort val­mögu­leika eða skyldu við viss skil­yrði fyrir hluta­bréf skráðra félaga á First North.

Mark­mið þess er að minnka sveiflur í verði hluta­bréfa og stuðla að traustari verð­myndun á mörkuðum þar sem seljan­leiki er lítill.

Upp­boðslíkanið var fyrst inn­leitt á First North-vaxtar­mörkuðunum í Svíþjóð og Finn­landi árið 2024 og hefur reynst vel í að draga úr verð­sveiflum, lækka við­skipta­kostnað og auka fjár­festa­vernd.

Sam­felld við­skipti víkja fyrir fyrir fram skil­greindum upp­boðum, sem fara fram fimm sinnum á dag: kl. 09:30 (opnunar­upp­boð), 11:00, 12:30, 14:00 og 15:30 (lokunar­upp­boð).

Hugsunin er sú að með því muni nást fram betri pörun milli kaup- og sölu­til­boða en ellegar, þar sem tími gefist til að safna saman nokkrum til­boðum í stað þess að sá sem vill kaupa eða selja á markaðs­gengi gangi beint inn í útistandandi til­boð, sem geta verið tölu­vert langt frá síðasta gengi eins og komið hefur verið inn á.

Fyrir­tæki sem færast yfir í upp­boðslíkanið

Fyrir­tæki á First North-vaxtar­markaði sem hvorki hafa við­skipta­vakt né upp­fylla skil­yrði um seljan­leika flytjast yfir í upp­boðslíkanið.

Skil­yrði fyrir slíkum flutningi er að verðbil milli kaup- og sölu­til­boða hafi farið yfir 7% tvo árs­fjórðunga í röð.

Mat á þessu verður gert tvisvar á ári, í júlí og janúar, þegar gögn fyrir undan­farna tvo árs­fjórðunga eru metin.

Sam­kvæmt gögnum frá þriðja og fjórða árs­fjórðungi 2024 munu við­skipti með hluta­bréf Klappa Grænna Lausna, Solid Clouds og Slátur­félags Suður­lands færast yfir í upp­boðslíkanið þann 1. apríl nk.

Mark­mið og væntingar

Með þessu skrefi vonast Nas­daq Iceland til að bæta að­gengi fjár­festa að markaði, draga úr sveiflum og skapa öruggara við­skipta­um­hverfi. Upp­boðslíkanið tryggir að við­skipti fari fram þegar kaup­endur og selj­endur ná saman um verð, sem eykur fyrir­sjáan­leika og lækkar við­skipta­kostnað.

Reglu­bók First North Growth Market hefur verið upp­færð og frekari upp­lýsingar um upp­boðslíkanið má finna í Nas­daq Nor­dic INET Market Model.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um uppboðslíkanið um haustið 2023 og er hægt að lesa meira um það hér að neðan.