Meðal verkefna á döfinni hjá Reitum fasteignafélagi er 90 þúsund fermetra atvinnukjarni á Korputúni í landi Blikastaða sem er á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Um er að ræða 3-4. hæða byggð fyrir verslunar-, þjónustu- og athafnasvæði og gert ráð fyrir að Mosfellsbær bjóði bráðlega út gatnagerð.

Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita, segir koma til greina að taka samtal við bæinn um mögulega breytingu á deiluskipulagi til að koma að hjúkrunarheimili á svæðinu.

„Það vill þannig til að vestasti hlutinn svæðisins snýr út að golfvellinum og ánni. Sá hluti er óskaplega fallegur og í sjálfu sér mun betur til þess fallinn að hýsa hjúkrunarheimili heldur en atvinnuhúsnæði. Annars er verkefnið komið vel á veg og er ég vongóður um að við getum tekið fyrstu skóflustunguna með haustinu.“

Meðal verkefna á döfinni hjá Reitum er 90 þúsund fermetra atvinnukjarni á Korputúni í landi Blikastaða sem er á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.

Fyrr í mánuðinum var haldinn kynningarfundur um Kringlureitinn þar sem Reitir taka þátt í uppbyggingu 450 íbúða, fjölbreytts atvinnuhúsnæðis og menningarhúss. Um er að ræða fyrsta skrefið í mikilli uppbyggingu á Kringlusvæðinu sem mun umbyltast á næstu árum með mikilli þróun. Fjöldi íbúða og þjónusturýma bætist við svæðið sem verður auk þess ein mikilvægasta samgöngumiðjan á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er komið skrið á verkefnið og fyrsti áfangi er í vinnslu. Þetta svæði er teiknað upp af Henning Larsen, dönskum arkitektum, og hefur mjúka ásýnd og er í anda gömlu Reykjavíkur, með valmaþök og óreglulega götumynd. Svæðið er teiknað upp þannig að húsin á jaðrinum eru hærri en þau sem eru fyrir miðju, sem skapar sólrík rými og skjól og spilar saman við Kringluna í næsta nágrenni jafnframt því að gefa góða tengingu við Hlíðarnar. Hverfið mun líta allt öðruvísi út en ný hverfi sem við sjáum oft í dag, þetta verða ekki þessi steinsteypuflykki heldur frekar hefðbundin gamaldags hús í lögun, stærð og litum. Í framhaldi vonast ég eftir því að við getum fikrað okkur áfram í seinni reitina, á þessu svæði sem snúa að Húsi verslunarinnar og á endanum mun þetta svæði sem snýr að Kringlumýrarbraut vera fullbyggt. Við teljum að íbúðirnar á svæðinu verði mjög eftirsóttar, enda fáum við ekki oft reiti í miðbæ Reykjavíkur til að þróa og byggja upp.“

Nánar er rætt við Guðna í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.