Umferð um Akureyrarflugvöll er frekar mikil samanborið við aðra flugvelli á landsbyggðinni. Hann er miðstöð sjúkraflugs auk þess að sinna áætlunarflugi innanlands og svo til Grænlands. Tilkoma Niceair mun auka verulega álagið á vellinum, sem er nú í fyrsta sinn heimavöllur flugfélags í reglubundnu millilandaflugi. Þorvaldur Lúðvík finnur fyrir góðum samstarfsvilja frá Isavia en uppbygging á vellinum sé að minnsta kosti 10 árum á eftir. Fyrsta skóflustunga að nýrri flugstöð var tekin í júní í fyrra en það sé alveg augljóst á þessum tímapunkti að hún verði of lítil miðað við aukin umsvif á vellinum.
„Menn hafa gleymt sér á undanförnum árum, einblínt eingöngu á Keflavík. Sífellt meira flugframboð stappast inn til Keflavíkur en ekkert er gert til að bæta aðstöðuna á varaflugvöllunum, Reykjavík, Egilsstöðum og Akureyri. Ef Keflavík lokar þá verður að beina þessum vélum eitthvað annað.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.