Samkomulag hefur náðst milli Mosfellsbæjar og Blikastaðalands ehf., dótturfélag Arion banka, um uppbyggingu nýrrar íbúðabyggðar í landi Blikastaða, sem er stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti endanlegt samkomulag í gærkvöldi eftir að hafa fengið afgreiðslu í bæjarráði.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða verði 3.500 til 3.700 talsins, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis. Fram undan er skipulagsvinna á svæðinu sem felur í sér undirbúning breytinga á aðalskipulagi og í kjölfar þess gerð deiliskipulags.

„Hverfið verður hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk getur sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum þar sem Borgarlínan verður í burðarhlutverki,“ segir í tilkynningu Mosfellsbæjar.

Svæðið er á sveitarfélagamörkum við Reykjavík og afmarkast af golfvelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar í norðri, Korpúlfsstaðavegi og Vesturlandsvegi í suðri, núverandi byggð í Mosfellsbæ í austri og Úlfarsá í vestri.

Samkomulagið felur í sér að Blikastaðaland tekur þátt í uppbyggingu svæðisins í takt við framvindu uppbyggingarinnar og mun Mosfellsbær fá allt landið endurgjaldslaust til eignar eftir því sem þróun svæðisins vindur fram. Blikastaðaland ehf. mun afhenda Mosfellsbæ til eignar 40 einbýlishúsalóðir ásamt því að afhenda 80% af söluverði tiltekinna lóða fyrir atvinnuhúsnæði og 60% af söluverði lóða fyrir íbúðir fyrir 55 ára og eldri til Mosfellsbæjar. Að öðru leyti mun allur byggingaréttur ásamt tilheyrandi lóðaréttindum tilheyra félaginu en greint er frá helstu atriðum samningsins í tilkynningu Arion til Kauphallarinnar.

Blikastaðaland ehf. er í eigu félagsins Landeyjar, dótturfélags sjóðsins SRL sem er í rekstri Stefnis og alfarið í eigu Arion banka. Bókfært virði Blikastaðalands í efnahagsreikningi Arion var 5,1 milljarður í lok mars síðastliðins.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:

„Íbúðabyggð á Blikastaðalandinu hefur lengi verið á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og það er fagnaðarefni að þetta mikilvæga uppbyggingarverkefni sé nú leitt til farsælla lykta. Ég veit ekki til þess að stærri samningur um uppbyggingu íbúðahverfis hafi verið gerður hér á landi, enda er um að ræða tímamótasamning sem skiptir núverandi og verðandi Mosfellinga og Blikastaðaland afar miklu máli.

Samningurinn tryggir farsæla uppbyggingu hér í Mosfellsbæ, uppbyggingu sem er til þess fallin að efla þjónustu og lífsgæði Mosfellinga og efla samfélag okkar á alla lund. Þá verður ekki framhjá því litið að uppbygging á landi Blikastaða verður lykilþáttur í að tryggja gott lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu sem mætir þeirri eftirspurn eftir húsnæði sem við höfum fundið svo vel fyrir í okkar vexti síðustu ár. Blikastaðir eru mikilvægur hluti bæjarins okkar og það verður mjög ánægjulegt að sjá nýtt og skemmtilegt hverfi byggjast upp á þessu fallega landi milli fella og fjöru á næstu árum.“

Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blikastaðalands ehf.:

„Við sjáum mikil tækifæri í uppbyggingu þéttrar, sjálfbærrar og mannvænnar byggðar á Blikastaðalandi í takti við innleiðingu á Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að mikil þörf er fyrir íbúðahúsnæði um þessar mundir og því rétt að hefja uppbyggingu eins fljótt og auðið er. Falleg og ósnortin náttúra er skammt frá landinu sem og útivistarperlurnar Úlfarsfell og Úlfarsá. Þessi náttúrugæði eru sérstaða Mosfellsbæjar og það er ákveðin áskorun að tvinna nýja byggð saman við náttúru svæðisins svo úr verði aðlaðandi og fallegur bæjarhluti. Það er því mikilvægt að vanda til verka, en að sama skapi fellur verkefnið afar vel að markmiðum Arion banka og Stefnis um ábyrgar fjárfestingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Við erum spennt fyrir verkefninu og hlökkum til að taka þátt í að gera það að veruleika.“

Viðræður um uppbyggingu á Blikastaðalandinu hafa staðið yfir í nokkur ár og mikil undirbúningsvinna hefur átt sér stað. Viðskiptablaðið spurði Harald Sverrisson, fráfarandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar, um Blikastaðalandið í janúar 2021.

„Það hafa verið gerðar nokkrar atrennur að uppbyggingu á Blikastaðalandi enda um frábært byggingarland að ræða sem er mjög vel staðsett svæði fyrir íbúabyggð. Sumum þykir ef til vill skrítið að þetta land hafi ekki verið byggt upp fyrst, þar sem það er næst Reykjavík og byggingarlandið um 70 hektarar að flatarmáli,“ sagði Haraldur.

Blikastaðir, Blikastaðaland
Blikastaðir, Blikastaðaland
© Aðsend mynd (AÐSEND)