Nýlega birtust niðurstöður stærstu rannsóknar af sinni gerð sem hefur verið framkvæmd á sárum. Helstu niðurstöðurnar eru þær að fótasár af völdum sykursýkis, á stigi 2 og 3, eru fljótari að lokast og mun líklegri til að gróa með fiskiroði samanborið við hefðbundna meðferð.

Kerecis kynnti niðurstöðurnar á ráðstefnu um framfarir í meðhöndlun sára (e. Symposium on Advanced Wound Care) sem haldin var dagana 2.-5. október í Las Vegas.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, segir það langhlaup að ná fótfestu á mörkuðum utan Bandaríkjanna, en móðurfélagið Coloplast sé nú þegar starfandi á mörgum þeirra.

„Það getur reynst flókið fyrir fyrirtæki í geiranum að hefja sölu á nýjum markaði, þar sem hvert land er með sitt eigið tryggingakerfi, reglur og hefðir. Sum lönd eru með svipað sjúkratryggingakerfi og er á Íslandi, sum eru með einkatryggingafyrirtæki, og önnur einhvers konar blöndu af hvoru tveggja.

Þar kemur Coloplast inn, en vörur félagsins eru seldar í yfir 150 löndum út um allan heim, og hefur félagið því mikla reynslu af því að koma vörum á markað. Samstæðan er með öflugar deildir sem sérhæfa sig í því að búa til gögn fyrir heilbrigðisyfirvöld í hinum ýmsu löndum.“

Hann bætir við að lokamarkmiðið sé að fiskiroð Kerecis verði hefðbundna meðferðin við alvarlegum sárum á heimsvísu, sem allir læknar og heilbrigðisstarfsmenn muni nota.

„Uppbygging Kerecis er langhlaup. Það þarf að fjárfesta í rannsókn og þróun, sem og í sölu- og markaðsstarfi. Við höfum lagt áherslu á hvort tveggja, því það er það sem þarf til að ná árangri.“

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á SAWC ráðstefnunni sem haldin var í Las Vegas nú á dögunum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)