Í kafla nýútgefinnar fjármálaáætlunar um efnahagshorfur næstu ára er að finna graf sem sýnir það hvernig árlegur meðalvöxtur framleiðni á vinnustund – undirstöðu verðmætasköpunar og þar með lífskjara til lengri tíma litið – hefur fallið úr 3,2% á tímabilinu 1996 til 2010 í aðeins 1,3% síðastliðinn áratug. Vöxturinn er þar sagður hafa helmingast, en miðað við þær tölur hefur hann raunar fallið um rétt tæp 60%.
Þessu til skýringar segir svo [feitletrun er blaðamanns]:
„Fjölgun starfa undanfarin ár, sem drifið hefur áfram hagvöxt, hefur aðeins verið möguleg vegna mikils aðflutnings erlendra ríkisborgara því innfæddum Íslendingum á vinnufærum aldri hefur ekki fjölgað undanfarin ár. Árið 2021 voru innflytjendur á vinnufærum aldri 44 þúsund og eru þeir tvöfalt fleiri en fyrir áratug.
Stór hluti þeirra hefur komið af evrópska efnahagssvæðinu til að starfa í mestu vaxtargreinunum, ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Menntunarstig þeirra er lægra en Íslendinga að meðaltali. Ekki er útlit fyrir annað en áframhaldandi fólksflutninga til landsins, að minnsta kosti á meðan eftirspurn eftir vinnuafli er viðlíka mikil.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 5. apríl.