Í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, svara nokkrir forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins spurningum um hvað þeim fannst um árið sem var að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins sem er nýgengið í garð.
Karen Ósk Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Lyfju
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Árið var viðburðaríkt hjá Lyfju þar sem við komum inn í samstæðu Festi. Við höfum þróað lausn í takt við okkar framtíðarsýn með góðum samstarfsaðilum sem getur létt á heilbrigðiskerfinu og bætt aðgengi um allt land. Það var gefandi að endurhugsa heilbrigðisþjónustuferla út frá viðskiptavininum, en það kom okkur á óvart hversu langt og óljóst ferlið er hjá hinu opinbera gagnvart nýsköpun í heilbrigðisþjónustu.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Við sjáum viðskiptavinum sem nýta Lyfju appið stöðugt fjölga og mesta þakklæti ársins fer til Lyfjuliðs um allt land sem heldur áfram að toppa sig í fagmennsku og þjónustu. Ég er stolt af vottuninni Hrein vara í Lyfju sem sett var í loftið á árinu, þar eru innihaldsefni rýnd með tilliti til hreinleika, uppruna og umhverfisáhrifa. Markmiðið er að einfalda viðskiptavinum valið í átt að hreinum valkostum.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Við erum tilbúin með stafræna þjónustu sem einfaldar viðskiptavinum leið að lausn við algengum heilsufarskvillum sem ég ber væntingar til að verði komin í loftið á næsta ári. Við sjáum tækifæri í að koma sterkar inn í fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu, sem getur létt á heilbrigðiskerfinu og bætt aðgengi að heilsutengdri þjónustu. Við erum spennt fyrir að skerpa enn frekar á okkar mikilvæga hlutverki, lyfjafræðilegri ráðgjöf.
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Það einkenndist af mikilli eldgosahrinu við Sundhnúksgígja, sem olli skemmdum á fasteignum, innviðum og var heilt bæjarfélag rifið upp með rótum. Kaup ríkisins settu svip sinn á hagtölur, ekki síst húsnæðismarkaðinn. Þó að þjóðarskútan hafi átt við mótbyr að stríða, sem endurspeglast í 1% samdrætti á fyrstu níu mánuðum ársins, er útlit fyrir að okkur takist að ná lendingu án þess að steyta á skeri.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Það er jákvætt að sjá hversu vel hefur tekist til að ná niður verðbólgu, en hún er nú komin undir 5% og útlit fyrir að leiðin sé áfram niður á við. Hjöðnun verðbólgunnar hefur skapað svigrúm fyrir vaxtalækkanir og hafa stýrivextir verið lækkaðir um 0,75%. Í þessu samhengi er vert að minnast á kjarasamningana sem samþykktir voru í upphafi árs, en það var ánægjulegt að sjá að samið var til lengri tíma og breið samstaða skapaðist um að ná niður vöxtum og verðbólgu.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Ég geng bjartsýn inn í næsta ár og ber þess von í brjósti að hagkerfið taki við sér á nýjan leik – og að bætt verði úr gagnasöfnun og gæði hagtalna. Við stöndum frammi fyrir áskorunum, raunvaxtastig er hátt og viðsjárverðir tímar eru á alþjóðavettvangi, en undirstöður hagkerfisins eru sterkar, heimili og fyrirtæki standa almennt traustum fótum og það býr mikill kraftur og nýsköpun í þjóðinni.
Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Árið 2024 var var eins og oftast fullt af áskorunum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Eftirspurnin gaf eftir fyrri hluta ársins og í apríl og maí voru margir í greininni farnir að örvænta. Erfið umfjöllun um eldhræringar á Reykjanesi, lítil almenn markaðssetning á lykilmörkuðum, og óvænt hækkun gistináttaskatts í upphafi ársins bættust ofan á minnkandi eftirspurn, háa vexti og þungan launakostnað. Eins og svo oft áður sýndi greinin mikla seiglu og sveigjanleika. Þegar leið á árið fór hagurinn að vænkast, þó að telji megi mjög líklegt að samdráttur í tekjum sé staðreynd þetta árið.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Ferðaþjónustan gekk heilt yfir vel á árinu og skilaði af sér mörg hundruð þúsunda ánægðra ferðamanna, sem skildu eftir mikil verðmæti í landinu. Í þessu samhengi er líka rétt að minnast á ferðaþjónustufyrirtækin í Grindavík og nágrenni, sem hafa gengið í gegnum erfiða tíma og rísa upp aftur og aftur og laga starfsemi sína að vægast sagt óstöðugu rekstrarumhverfi.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Ég er í heildina séð bjartsýnn fyrir hönd greinarinnar, sem hefur allar forsendur til að halda áfram að vera ein mikilvægasta efnahagsstoð þjóðarinnar. Þó með þeim fyrirvara að það gætu komið til manngerðar truflanir til dæmis vegna óskynsamlegra ákvarðana næstu ríkisstjórnar.
Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastj. innanlandssv. hjá Eimskip
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Árið 2024 var bæði viðburðaríkt og krefjandi. Við náðum frábærum árangri í mörgum málefnum Eimskips, s.s. í þróun mannauðs og að skerpa línur í rekstrinum ásamt því að nýta gervigreind til að auka skilvirkni. Á móti kemur glíman við háa vexti og verðbólgu, kjarasamninga og íþyngjandi regluverk frá Evrópusambandinu, eins og ETS kerfið. Einnig hafa verið miklar sveiflur í alþjóðlegum flutningsverðum vegna ástandsins í Rauðahafi.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Það var mjög gott að ná skynsamlegum kjarasamningum sem gefa fyrirsjáanleika til næstu fjögurra ára. Einnig var jákvætt að vextir og verðbólga tóku loks að lækka og vonandi mun ný ríkisstjórn sýna skynsemi og aðhald svo sú vegferð haldi áfram. Þá gerðum við hjá Eimskip breytingu á gámasiglingakerfinu í upphafi árs með það að markmiði að bæta þjónustu og auka áreiðanleika enn frekar og á sama tíma að minnka kolefnisspor og gekk það hvoru tveggja vel eftir.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Ég er bjartsýn fyrir næsta ár. Vonandi fáum við samhenta ríkisstjórn sem tekur réttar ákvarðanir í hagstjórn, á húsnæðismarkaði og skapar atvinnulífinu aukinn fyrirsjáanleika. Evrópa þarf að draga úr íþyngjandi regluverki til að tryggja samkeppnishæfni og vonandi sjáum við skref stigin í þá átt. Á persónulegu nótunum var ég að taka við spennandi starfi framkvæmdastjóra innanlandssviðs hjá Eimskip og hlakka til að setja mig betur inn í reksturinn og halda áfram að þróa okkar góðu þjónustu í innanlandsflutningum sem styður við vöxt og viðgang íslensks efnahagslífs.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Icelandair. Flugáætlun okkar var sú stærsta hingað til og við kynntum nýja og spennandi áfangastaði. Eftir mikið uppbyggingartímabil undanfarinna ára höfum við lagt áherslu á að auka skilvirkni í rekstrinum á þessu ári. Með sameiginlegu átaki okkar öfluga starfsfólks eru þessar áherslur þegar byrjaðar að skila árangri en þær munu renna stoðum undir arðbæran vöxt og árangur félagsins til lengri tíma.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Við héldum áfram að ná góðum árangri í flugrekstrinum sem endurspeglaðist til dæmis í met stundvísi og lækkun einingakostnaðar þrátt fyrir verðbólgu og miklar kostnaðarhækkanir. Það sem jafnframt stóð upp úr á árinu var undirritun samstarfssamninga, eins og við Emirates, TAP Portugal, Air Greenland, Atlantic Airways og síðast en ekki síst Southwest Airlines sem þeirra fyrsta samstarfsflugfélag. Þessir samningar styrkja tekjugrunn félagsins og gera okkur kleift að skapa enn fleiri ferðamöguleika fyrir viðskiptavini okkar.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Það eru spennandi tímar framundan. Við tókum á móti okkar fyrstu Airbus flugvél í byrjun desember sem markaði mikil tímamót í sögu Icelandair. Tilkoma þessara öflugu, langdrægu og sparneytnu véla mun skapa mikil tækifæri, ekki bara fyrir leiðakerfi Icelandair, heldur áframhaldandi þróun Íslands sem ferðamannalands og tengimiðstöðvar milli heimsálfa. Á næsta ári höldum við áfram að kynna nýja og spennandi áfangastaði, eins og Nashville, Istanbul og jafnvel fleiri sem eiga eftir að koma í ljós. Ég þakka viðskiptavinum okkar traustið og samfylgdina á árinu og við hlökkum til komandi ferðaárs.
Helga Árnadóttir, forstjóri og meðstofnandi Tulipop
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Upp úr standa pólitískar sviptingar og spennandi kosningar sem færðu okkur nýjan forseta, nýja ríkisstjórn og veldisvöxt í framleiðslu krassandi hlaðvarpa um þjóðmál. Háir vextir og þrautseig verðbólga sligaði atvinnurekendur og fjölskyldur, og krónískur húsnæðisskortur í boði borgaryfirvalda viðhélt vandræðaástandi á fasteignamarkaði. Þörf umræða spratt upp um menntamál og nauðsynlegar breytingar til að tryggja íslenskum börnum menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Að loks hafi tekist að koma böndum á verðbólguna og að vextir séu byrjaðir að lækka er lykilatriði bæði fyrir fólk og fyrirtæki, en skynsamlegri kjarasamningar en sést hafa lengi vógu þar þungt. Þrátt fyrir allt hefur verið ágætis gangur í íslensku efnahagslífi, atvinnuleysi er lítið sem ekkert, gengi krónunnar hefur haldist stöðugt, og til hafa orðið fjölmörg efnileg nýsköpunarfyrirtæki og nýir sjóðir sem fjárfesta í sprota- og vaxtarfyrirtækjum.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Árið getur orðið frábært en það er að miklu leyti undir nýrri ríkisstjórn komið sem þarf að sýna að hún standi í fæturnar hvað varðar stjórn efnahagsmála, og getu til að hrinda í framkvæmd brýnum umbótaverkefnum, m.a. í menntakerfinu og hvað varðar óásættanlega biðlista barna sem þurfa á stuðningi að halda. Borgaryfirvöld hljóta að hysja upp um sig brækurnar á sviði skipulagsmála og vonandi sjáum við fleiri íslensk nýsköpunarfyrirtæki spretta upp og ná árangri á heimsvísu. Fyrir hönd áhugafólks um ferðalög bið ég fyrir góðu gengi íslensku flugfélaganna með áframhaldandi fjölgun áfangastaða – og góðu sumri með smá sólarglætu fyrir íbúa suðvesturhornsins.
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Árið var mjög viðburðaríkt fyrir Skaga. Samþætting VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar, og nú síðast Íslenskra verðbréfa hefur gengið vel. Skagi birti sitt fyrsta uppgjör undir nýju nafni samstæðunnar í Kauphöllinni í febrúar og við erum ánægð með árangurinn á fyrsta starfsári. Tekjur af tryggingastarfsemi hafa aukist í takt við áætlanir á árinu og hreinar tekjur af fjármálastarfsemi sömuleiðis vaxið umtalsvert.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Samþætting félaganna undir hatti Skaga hefur gengið mjög vel, og ég er þakklátur starfsfólki fyrir hversu opið það hefur verið fyrir breytingum. Það var gaman að kynna nýtt nafn og vörumerki sem sameinar starfsemina. Við höfum sömuleiðis lagt mikla áherslu á að bæta enn í þjónustu við viðskiptavini og það hefur verið gaman að sjá að ánægja viðskiptavina með þjónustu allra dótturfélaga samstæðunnar hefur aukist á árinu og ánægja hefur ríkt á meðal viðskiptavina með aukið vöruframboð. Þá vill ég nefna kaupin á Íslenskum verðbréfum, en við sjáum mikil tækifæri með aukinni þjónustu við viðskiptavini ásamt því að ná stærðarhagkvæmni í fjármálastarfsemi okkar
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Ég er mjög bjartsýnn og býst við áframhaldandi vexti í tryggingastarfsemi þar sem við höfum náð góðum árangri. Við ætlum líka að halda áfram að styrkja fjármálastarfsemina og fjölga nýjum viðskiptavinum. Efnahagshorfur hafa batnað og í umhverfi aukins vaxtar verða til góðar aðstæður fyrir Skaga til að styrkja stöðu sína á markaði með áherslu á góða þjónustu, skilvirkni og árangur.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Hátt vaxtastig hefur sett strik í reikninginn hjá fyrirtækjum og heimilum landsins. Bjartsýni gætti í upphafi árs en háir vextir hafa neikvæð áhrif á rekstur og fjárfestingar. Eins og fyrri ár hefur reynt á viðnámsþrótt þar sem krefjandi aðstæður kalla á viðbrögð. Á sama tíma og fólk þurfti að yfirgefa heimili sín í Grindavík hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með stórum hópi fólk vinna hörðum höndum að því að bjarga verðmætum og halda mikilvægum innviðum í rekstri. Skortur á raforku kostaði 14-17 milljarða í tapaðar útflutningstekjur á fyrri hluta ársins og skerðingar hófust aftur í október.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Hugverkaiðnaður er sú útflutningsstoð sem vex hraðast og gæti orðið verðmætasta útflutningsstoðin fyrir lok þessa áratugar. Það var gleðilegt að sjá Alþingi framlengja skattahvata til nýsköpunar rétt fyrir þinglok. Við fögnum því að stjórnvöld hafi sett af stað framkvæmdir við verknámsskóla og að nýr Tækniskóli muni rísa í Hafnarfirði. Allt að þúsund umsóknum um iðnnám hefur verið hafnað árlega undanfarin ár, meðal annars vegna húsnæðisskorts.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Bætt samkeppnishæfni, nýjar virkjanir, nýjar íbúðir, betri innviðir og afhúðun regluverks eru verkefni sem bíða úrlausnar. Hið sama á við um umbætur á vinnumarkaði, bæði hvað varðar löggjöf og að hið opinbera líti í eigin barm hvað varðar þenslu. Viðnámsþróttur og gervigreind eru meðal helstu viðfangsefna ársins. Það eru blikur á lofti í alþjóðamálum en tollastríð er í aðsigi bæði austan hafs og vestan. Hagsmunagæsla hefur sjaldan verið mikilvægari.
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar
Hvernig var árið 2024 á heildina litið?
Árið var áhugavert fyrir margar sakir. Verðbólga, háir stýrivextir og þrýstingur á kaupmátt höfðu mikil áhrif á íslenskan markað og samfélag. Að auki skapaði pólitísk ólga, bæði hérlendis og erlendis, óstöðugleika sem hafði áhrif á bæði fólk og fyrirtæki. Stríðsátök færðust einnig í aukana með tilheyrandi óvissu til framtíðar. Kosningar á Íslandi og í Bandaríkjunum sýndu einnig fram á að fólk er þreytt á núverandi stöðu og vill sjá breytingar.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Margt hefur gengið vel þrátt fyrir að ytri aðstæður hafi haft í för með sér áskoranir. Við lögðum mikla áherslu á að draga úr áhrifum ytri aðstæðna á verð til neytenda, auk þess sem við styrktum stöðu okkar enn frekar á sviði nýsköpunar og sjálfbærni. Einnig er ég ánægð með útrás snjallverslunar á landsbyggðinni en það er okkur kappsmál að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að neytendur fái fjölbreytt vöruúrval á sem hagkvæmasta verði óháð búsetu. Sérstaklega er ég stolt af samheldni og metnaði Krónuteymisins sem gerir okkur kleift að mæta síbreytilegum þörfum viðskiptavina og vera framsækin á markaði.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Tækifærin eru mikil fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag. Við verðum að þora að taka stefnumótandi ákvarðanir til lengri tíma og tryggja aukinn stöðugleika. Ég vona að ný ríkisstjórn verði hvetjandi og uppbyggileg, horfi til nýsköpunar og framþróunar og hugsi í lausnum. Framtíðin er björt ef við stöndum saman og höfum hugrekki til að nálgast hana af krafti.