Jón Eggert Halls­son, sjóð­stjóri hjá Stefni, telur að ef til­lögur um upp­gjör íbúða­bréfa (HFF-bréfa) nái fram að ganga muni það hafa jákvæð áhrif á skulda­bréfa­markaðinn.

Á mánu­daginn til­kynnti viðræðu­nefnd fjár­málaráðherra og ráðgjafar 18 líf­eyris­sjóða til­lögur um upp­gjör bréfanna sem munu greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs.

Virði HFF-bréfanna í upp­gjörinu er metið 651 milljarður króna og er m.a. lagt til að ríkis­sjóður gefi út og af­hendi kröfu­höfum ríkis­skulda­bréf að and­virði 540 milljarða króna.

Í tengslum við upp­gjörið gefur ríkis­sjóður út ný ríkis­skulda­bréf að fjár­hæð 540 milljarða króna þar sem m.a. er gerð upp eldri skuld ríkis­sjóðs við ÍL-sjóð að fjár­hæð 238 milljarða króna auk þess sem ábyrgð ríkis­sjóðs á skuld­bindingum ÍL-sjóðs er gerð upp.

Verði svo að samningur náist mun fjöldi verð­tryggðra ríkis­skulda­bréfa á markaðinum þre­faldast.

Spurður um áhrifin af þessu segir Jón Eggert sú fjölgun vera af hinu góða.

„Það er frábært að fá fleiri flokka. Þetta eykur dýpt markaðarins og ég lít það mjög jákvæðum augum,“ segir Jón Eggert í sam­tali við Við­skipta­blaðið.

Spurður um hvort það skipti ein­hverju máli að verið sé að tvíefla verð­tryggðu hliðina, segir Jón Eggert það ekkert endi­lega neikvætt.

„Öll aukin skil­virkni er góð og líf­eyris­kerfið er heilt yfir með verð­tryggðar skuld­bindingar og ef þú horfir á kerfið í heild sinni þá eru eignirnar með tals­vert styttri líftíma heldur en skuld­bindingar þannig ég held það sé jákvætt að auka dýptina á langa verð­tryggða endanum.“

Að mati Jóns Eggerts er þó það mikilvægasta að það komist niður­staða í málið svo hægt sé að klára mál­efni ÍL-sjóðs.

„Til að mynda ef við horfum á þetta út frá láns­hæfis­mati þá eru allar flækjur fyrir utan­aðkomandi aðila til skilja betur stöðu ríkisins vondar. Það er bara mjög jákvætt heilt yfir að skýra þetta mál og fá endan­lega niður­stöðu. Það er bara mjög jákvætt fyrir land og þjóð.“

Fjár­málaráðu­neytið áætlar að að­gerðin skili jákvæðu greiðslu­flæði til ríkis­sjóðs á næstu árum og að skulda­hlut­föll A-hluta ríkis­sjóðs muni að loknum öllum ráðstöfunum vegna upp­gjörsins batna um a.m.k. 5% af vergri lands­fram­leiðslu.

Ríkisábyrgðir muni jafn­framt lækka um 88% miðað við stöðu í árs­lok 2024. Verðbréf, sem ríkis­sjóður hefur gefið út eða ábyrgst, munu við upp­gjör HFF bréfanna lækka um 111 milljarða króna að markaðsvirði.

Spurður um hvort upp­gjörið hafi ein­hver áhrif á hag­kerfið í heild segir Jón Eggert erfitt að meta það að svo stöddu enda margir þættir sem togi í mis­munandi áttir.

„Til að mynda það að líf­eyris­sjóðirnir fái 55 milljarða í evrum. Ég myndi halda það væri mjög jákvætt fyrir krónuna til skemmri tíma. Það minnkar gjald­eyris­kaup líf­eyris­sjóðanna í ein­hvern tíma. Það er mjög jákvætt,“ segir Jón Eggert. „Það er þó erfitt að sjá hvort þetta hafi ein­hver teljandi áhrif á verðbólgu, vexti og verðbólgu­væntingar. Það er erfitt að meta það að svo stöddu,“ segir Jón Eggert en sam­kvæmt til­lögunum mun ríkið leggja til 73 milljarða í reiðufé, þar af 55 milljarða í evrum og 18 milljarða í krónum.

Spurður um hvort þetta gæti haft áhrif á ávöxtunar­kröfu ríkis­skulda­bréfa og þar af leiðandi neikvæð áhrif á aðra vexti, segir Jón Eggert það ekkert endi­lega stöðuna.

„Aukin skil­virkni, fleiri flokkar er jákvætt upp á skil­virkari verð­myndun. Hvort að ávöxtunar­krafan eigi að vera hærri eða lægri út af þessu er erfitt að leggja mat á það.“

Jón Eggert segir að það skipti einnig máli að eig­endur HFF-bréfanna hefðu fengið tugi milljarða í af­borgun á þessu ári af HFF-bréfunum sem þeir fá ekki núna en þeir fá ríkis­bréf í staðinn.

„Þannig þetta hefur mikil áhrif á upp­byggingu skulda­bréfa­markaðarins heilt yfir.“

Að mati Jóns Eggerts er því niður­staðan ekki bara jákvæð fyrir ríkis­sjóð heldur einnig líf­eyris­sjóðina sem fá langar verð­tryggðar eignir í staðinn.

Skuld­bindingar líf­eyris­sjóða eru verð­tryggðar og langar en sé litið á áhættustýringu þá eru þeir með of stutta eignar­hlið, því geta löng verð­tryggð skulda­bréf verið ágætis eign fyrir líf­eyris­sjóði.