Greiningar­fyrir­tækið AKKUR segir undir­liggjandi rekstur Ís­lands­banka vera mun sterkari en áður var talið og bendir á að bæði vaxta­tekjur og þóknana­tekjur hafi farið veru­lega fram úr væntingum á öðrum árs­fjórðungi.

Ís­lands­banki birti upp­gjör fyrir annan árs­fjórðung 2025 eftir lokun markaða í gær en sam­kvæmt Akkur er af­koma tölu­vert um­fram væntingar, bæði í tekjum og hagnaði að frá­dregnum kostnaði.

Allir helstu tekjuliðir bankans voru um­fram spár greiningar­fyrir­tækisins og þá sér­stak­lega kjarna­tekjur, þ.e. hreinar vaxta­tekjur og þóknana­tekjur, sem voru tæp­lega 6% yfir væntingum.

Hagnaður að frá­dregnum rekstrar­kostnaði var um 13% yfir spáakkur og var þetta jafn­framt sterkasti árs­fjórðungur bankans frá upp­hafi þegar litið er til undir­liggjandi hagnaðar.

Vaxta­munur og útlána­vöxtur voru yfir væntingum og skapaði það sögu­legar vaxta­tekjur á fjórðungnum. Greiningar­fyrir­tækið bendir á að þetta gerist þrátt fyrir áhyggjur markaðarins um minnkandi vaxta­mun vegna lækkandi verðbólgu.

Þóknana­tekjur, sem að mestu komu frá fjár­festingar­banka­starf­semi, voru einnig tölu­vert yfir væntingum og vekur það at­hygli greiningaraðila að þessi tekju­lind virðist í vexti.

Rekstrar­kostnaður var um 270 milljónir króna undir væntingum og launa­kostnaður hækkaði um 6,8% milli ára, á meðan annar kostnaður lækkaði um 2,3% miðað við sama tíma­bil í fyrra (leiðrétt fyrir sekt).

Heildar­rekstrar­kostnaður jókst aðeins um 3,1% milli ára, sem telst hóf­legt í ljósi aðstæðna.

Eigið fé og endur­kaup styðja við gengi

Ís­lands­banki situr á um 40 milljörðum króna í um­fram eigið fé, eða sem nemur rúm­lega 17% af markaðsvirði bankans. Núverandi endur­kaupaáætlun nær til allt að 15 milljarða, eða rúm­lega 6% af markaðsvirði bankans, og sam­kvæmt Akkur ætti þetta að styðja við áfram­haldandi þróun hluta­bréfa­verðs.

Það ætti að vera jákvætt fyrir þá Ís­lendinga sem tóku þátt í út­boði ríkisins en líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær hefur al­menningur ákveðið að halda í bréfin sín.

Ein neikvæð niður­staða í greiningunni var að virkt skatt­hlut­fall bankans var um 30%, sem er yfir spám.

Þetta skýrist af óhagstæðri sam­setningu hagnaðar út frá skatt­hag­rænu sjónar­miði. AKKUR telur þó að áhrif þessa muni jafnast út yfir lengri tíma og leggur ekki mikla áherslu á þann lið til skemmri tíma.

Miðað við dagsloka­gengi í gær er markaðsvirði Ís­lands­banka 236 milljarðar króna, að teknu til­liti til eigin bréfa.

Það jafn­gildir 9,2x hagnaði síðustu 12 mánaða og 9,5x hagnaði ársins 2025 miðað við núverandi spá AKKUR.

P/B hlut­fallið er 1,05x. Í ljósi þess að upp­gjör ársins hingað til hefur verið um­fram væntingar eru „miklar líkur“ á að spá AKKUR fyrir árið í heild verði hækkuð.