Dr. Football, vörumerki Hjörvars Hafliðasonar, og orkudrykkurinn Nocco hafa gefið út nýja vörulínu í takmörkuðu upplagi. Vörulínan kom út á dr.football.is kl 12:00 í dag.

Vörulínan, sem kallast „red october“ eða „rauður október“, samanstendur af inniskóm, hettupeysu og hálskraga í rauðum haustlit. Þar að auki hafa Dr. Football og Nocco gefið út dúnúlpu í „white smoke“ litnum sem Hjörvar og hönnunarteymið hans, Jón Kári Eldon og Arnar Freyr Ársælsson, unnu að á árunum 2021-2024.

„Þessir nýju skór, „rauður október“, er ákveðið uppgjör við mennskuna. Það var lendingin hjá mér og Ársæli Þór, eiganda Nocco, að í þetta skipti fengi mennskan að ráða för,“ segir Hjörvar í samtali við Viðskiptablaðið.

Hjörvar er stoltur af inniskónum. Hönnunarferlið tók fimm mánuði.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hjörvar hafði hitað upp fyrir birtingu vörulínunnar á samfélagsmiðlum dagana á undan, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.

„Rauður október“ er tileinkaður þessum fallegu októberlitum sem einkenna haustin. Við ákváðum að gefa út inniskóna í dag, 1. nóvember, af því að það er einmitt dagurinn sem er lengst frá október,“ bætir Hjörvar við.

Þetta er önnur vörulína Dr. Football og Nocco, en í apríl síðastliðnum kom út fyrsta vörulínan. Hún samanstóð af inniskóm og stuttermabolum. Greindi Hjörvar frá því í viðtali hjá Viðskiptablaðinu á sínum tíma að hönnunarferlið hefði tekið um þrjú ár.

„Þessi hugmynd um sérhannaða inniskó hefur lengi verið í bígerð en ég var aldrei fullkomlega sáttur með þá liti sem stóðu til boða. Loksins eftir þriggja ára vinnu duttum við niður á þennan „white smoke“ lit og þá var ákveðið að kýla á þetta.“

Hjörvar segir að hönnunarferlið fyrir „rauður október“ vörulínuna hafi verið mun styttra.

„Það sem er magnað er að „rauður október“ er ekki nema fimm mánaða hönnunarferli á meðan „white smoke“ tók aðeins lengri tíma. Við Ársæll settumst niður og ákváðum strax í hönnunarferlinu að leyfa okkur að vera mennskir. Það er sameiginleg trú okkar að það sé hægt að fara mýkri leiðir í þessum harða heimi, og ég vona að það hafi tekist með þessum skóm.“

Dúnúlpan er sjálfstætt framhald af „white smoke“ vörulínu Dr. Football og Nocco.
© Bullish Media (Bullish Media)

Óttaleysinu fylgi berskjöldun

Inniskórnir rauðu eru flaggskip vörulínunnar, en inni í skónum stendur „óttalaus“. Eitt af viðurnefnum Dr. Football hefur einmitt verið „Okkar óttalausi leiðtogi.“

Hjörvar bendir á að berskjöldunin sem fylgi óttaleysinu sé í raun önnur gerð af mennsku.

„Óttaleysinu fylgir berskjöldun, sem ég held að sé önnur gerð af einhvers konar mennsku. Mennskan er hornsteinninn að þessu öllu saman og það er okkar mat að stundum sé hægt að fara mýkri leiðir í hörðum heimi.“

Inniskórnir hafa vakið athygli.
© Bullish Media (Bullish Media)
Hálskragann segir Hjörvar á ýmsan hátt vera innblásinn af óöryggi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hjörvar segir að hálskraginn hafi upprunalega verið hugmynd barnanna hans Ársæls.

„Þau komu til mín og vildu fá eitthvað fyrir sig. Þá kom þessi hugmynd og ég vona að þetta hafi tekist vel. Viðbrögðin eru frábær og það er greinilega mikil eftirspurn eftir mannlegri ásýnd.“

Hálskragann segir Hjörvar á ýmsan hátt vera innblásinn af óöryggi.

„Þegar Halla Tómasdóttir hélt sinn fyrst TED fyrirlestur var hún pínu stressuð þar til hún fann sig í augunum á Sally Fields. Ef til vill er hálskraginn óbeint tileinkaður henni, og minnir okkur á að við getum öll orðið stressuð, jafnvel þótt við séum að halda TED fyrirlestur. Halla er líka þekkt fyrir hálsklútinn, og það lá beinast við að hanna hálskraga til heiðurs klútsins.“

Erfitt ár að baki

Hann segir árið 2024 hafa verið erfitt efnahagslega.

„Það er ekkert launungarmál að þetta ár hefur verið erfitt efnahagslega. Ég veit ekkert hvort að við endum réttum megin við núllið, en við gáfum allavega allt í þetta. Ég held að styrkur allrar línunnar felist í mýktinni, mennskunni og þrátt fyrir að það standi „óttalaus“ í skónum þá erum við um leið berskjölduð.“

Vörulínan kom út kl 12:00 í dag.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Hjörvar og hönnunarteymið hans, Jón Kári Eldon og Arnar Freyr Ársælsson, unnu að „white smoke“ litnum í þrjú ár.
© Bullish Media (Bullish Media)