Arftakaáætlanir og auglýsingar á störfum eru meðal þess sem gæti aukið veg kvenna í æðstu stöður fyrirtækja samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar. Samkvæmt henni er upplifun stjórnarkvenna af ráðningarferlum stjórnenda ekki eins og best verður á kosið, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Fyrir skemmstu var fimmtán félögum veitt viðurkenningin „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“, en að henni standa Stjórnvísi, Nasdaq Iceland, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Þrír síðastnefndu aðilarnir hafa um árabil gefið út leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja, en til að hljóta viðurkenninguna þurfa félög að starfa í samræmi við lög, leiðbeiningarnar og almennar reglur sem gilda um starf stjórna.
Leiðrétting: Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins var ranglega farið með nafn Ástu Dísar Óladóttur og hún kölluð Ása Dís Ólafsdóttir. Leiðréttist það hér með og er hlutaðeigandi beðin afsökunar á mistökunum.
Áður en viðurkenningarnar voru veittar hélt Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, tölu undir yfirskriftinni „Fjölbreytileiki og kynjajafnvægi“. Gerði hann þar meðal annars að umtalsefni nýlega grein, „Forstjóraráðningar í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum“, sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Höfundar hennar eru Þóra H. Christiansen, Ásta Dís Óladóttir, Erla S. Kristjánsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir, fræðimenn við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Greinin byggði á viðtölum við 22 konur sem sitja í stjórnum skráðra félaga, en í brennidepli var hvernig staðið er að ráðningarferlum forstjóra. Greinin er áhugaverð lesning, en í henni er að finna lýsingar á upplifun kvennanna af fyrirkomulaginu. Í sumum tilfellum er því lýst sem hálfgerðu leikriti, til að mynda hafi konu eitt sinn verið boðið starf forstjóra þegar vitað var að hún gæti ekki tekið starfið að sér sökum samkeppnisklásúlu og að aðkoma ráðningarstofa að ferlinu hafi oft verið hluti af sýningunni. Of oft hafi kunningjatengsl verið látin ráða för, auk þess að skilyrði um reynslu af forstjórastörfum geti verið afar útilokandi fyrir konur.
Sláandi lesning
„Ég las greinina í sumar og hún hefur verið mér ofarlega í huga síðan þá. Þótt margt hafi verið gert undanfarin ár til að minnka ójafnvægi kynjanna vissi maður að það væri margt sem mætti bæta. En efst í mínum huga voru niðurstöðurnar um upplifun valdleysis og fyrir mitt leyti var það nokkuð sláandi lesning,“ segir Magnús Harðarson við Viðskiptablaðið.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .