Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segir að sameining sveitarfélaga hafi ekki komið til tals meðal bæjarstjóra höfuðborgarsvæðisins. Hún var spurð út í tækifæri til sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Ásdís, sem tók við sem bæjarstjóri Kópavogs í júní 2022, benti á að Kópavogsbær er næststærsta sveitarfélag landsins með ríflega 41 þúsund íbúa og 2.700 starfsmenn í um tvö þúsund stöðugildum.

Hún sagðist hafa upplifað það þegar hún steig fyrst inn í ráðhús Kópavogs að boðleiðir væru stuttar og starfsfólk tilbúið að hlaupa hratt og hugsa í lausnum. Það hafi hjálpað sér að þoka áfram mikilvægum málefnum sem meirihlutinn setti á oddinn fyrir kjörtímabilið.

„Ég sé það alveg að ég er með ákveðna yfirsýn yfir sveitarfélagið mitt, en ég upplifi það ekki eins hjá Reykjavíkurborg,“ sagði Ásdís. Hún sagðist hafa velt talsvert fyrir sér samanburði á Kópavogi og Reykjavík.

„Auðvitað hef ég aldrei upplifað að vera borgarstjóri eða neitt slíkt, en það er svona mín upplifun þegar ég er í samtali við kjörna fulltrúa þar að það er skortur kannski á þessari yfirsýn. Þetta virkar eins og meira bákn – þunglamalegt og stofnanalegt kannski. Kannski er það bara menningin, það má vel vera.“

Ásdís hefur að undanförnu gagnrýnt meirihlutann í Reykjavíkurborg fyrir að standa í vegi fyrir endurskoðun á vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins, þrátt fyrir að forsendur svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2015 séu brostnar þar sem fjölgun íbúa hefur verið mun meiri en gert var ráð fyrir.

Annar þáttastjórnandi spurði hvort það væri helst sameining Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar sem kæmi til greina.

„Já það væri það,“ svaraði Ásdís en bætti við að slík sameining hefði þó ekki komið til tals meðal bæjarstjóra sveitarfélaganna.

Íbúar vilji ekki breyta Kópavogi í borg

Ásdís sagðist telja Kópavogsbæ fullkomna stærð af sveitarfélagi og benti á að skilgreina mætti hann sem borg í dag. Að hennar sögn eru Kópavogsbúar þó ekki spenntir fyrir að breyta nafninu í Kópavogsborg.

„Ég hef spurt Kópavogsbúa, geri það reglulega þegar ég hitti íbúa á fundum, hvort þeir hafi áhuga á því,“ sagði Ásdís. „En ég hef ekkert fengið mjög miklar undirtektir og ég finn það alveg að fólki auðvitað þykir vænt um nafnið Kópavogsbær.“

Tækifæri fyrir minni sveitarfélög að sameinast

Ásdís sagðist sjálf ekki hafa skoðað það sérstaklega að sameinast öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Hún sagði þó telja tækifæri til sameiningar hjá mörgum smærri sveitarfélögum í landinu. Sveitarfélög landsins eru um sextíu talsins.

„Við erum með alltof mörg sveitarfélög. Það hafa einhver sveitarfélög farið í að sameinast‏. Að einhverju leyti má segja að Jöfnunarsjóður kemur svolítið í veg fyrir að það sé hvati til sameiningar, þau eru mörg hver mjög fámenn,“ sagði Ásdís.

Hún tekur þar í sama streng og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð sem sögðu í sameiginlegri umsögn um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að „vandséð er annað en að tilvist Jöfnunarsjóðs dragi úr hvata til sameiningar og hagræðingar í rekstri sveitarstjórnarstigsins“.

Í dag sé staðan sú að rekstur sumra sveitarfélaga væri ósjálfbær ef ekki kæmi til verulegrar aðstoðar í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Ásdís ræðir um sameiningu sveitarfélaga frá 21:10-26:30.