Tveir nafnlausir uppljóstrarar sem störfuðu áður hjá Credit Suisse gætu átt von á samtals allt að 150 milljóna dala umbun, ríflega 19,6 milljörðum króna, eftir að hafa upplýst bandarísk stjórnvöld um að bankinn stæði ekki við loforð sitt um að stöðva bandaríska skattsvikara.
Málið varðar alvarleg brot á samkomulagi frá árinu 2014, þar sem bankinn hafði heitið því að hætta að aðstoða bandaríska ríkisborgara við að fela eignir fyrir skattayfirvöldum.
Bankinn játaði sök í umfangsmiklum skattsvikamálum þar sem bandarískum ríkisborgurum var hjálpað að fela eignir í Sviss.
Samkvæmt WSJ fól Samkomulagið í sér sektargreiðslu og loforð um að hætta slíkri þjónustu, loforð sem bankinn braut.
Endurtekin brot og ný sekt
Í þessari viku játaði Credit Suisse á ný sök fyrir að hafa aðstoðað við skattsvik og samþykkti að greiða 511 milljónir dala í sekt vegna brota á fyrrnefndu samkomulagi.
Í gögnum málsins kemur fram að bankinn hafi eftir 2014 opnað tugi reikninga fyrir bandaríska viðskiptavini sem áttu að hafa verið tilkynntir til bandarískra skattayfirvalda en voru það ekki.
Alls eru nefndir 475 reikningar sem Credit Suisse hefði átt að gera grein fyrir og tengdust Bandaríkjamönnum árið 2018, með heildareignir að andvirði um 4 milljarða dala.
Arðbært að ljóstra upp um svik
Fyrrverandi starfsmenn Credit Suisse, sem afhentu bandarískum yfirvöldum gögn um svikin, hafa ekki opinberað nöfn sín af ótta við saksókn samkvæmt svissneskum bankaleyndarlögum.
„Þeir finna fyrir réttlætingu fyrir að segja sannleikann, fórna eigin öryggi og stíga upp gegn einni stærstu fjármálastofnun heims,“ sagði lögmaður þeirra, Jeffrey Neiman.
Samkvæmt lögum í Bandaríkjunum geta uppljóstrarar í skattsvikamálum fengið 15–30% af innheimtum sektarfjárhæðum.
Verði endanleg umbun 150 milljónir dala yrði þetta ein stærsta umbun sem bandarísk skattyfirvöld hafa greitt í slíku máli.
Til samanburðar fékk fyrrverandi bankastarfsmaður hjá UBS greidda umbun upp á 104 milljónir dala árið 2012. Þá greiddi verðbréfaeftirlitið (SEC) 279 milljónir dala í sambærilegu máli árið 2023.
Credit Suisse sameinaðist UBS árið 2023 og eru þessi lögfræðilegu eftirmál því orðin hluti af lagalegri arfleifð UBS.
Í yfirlýsingu sagði UBS að félagið væri ánægt með að hafa „leyst enn eitt arfleifðarmál Credit Suisse“ og benti á að kostnaður vegna málsins hefði verið tekinn með í reikninga þegar yfirtakan fór fram.