Tveir nafn­lausir upp­ljóstrarar sem störfuðu áður hjá Credit Suis­se gætu átt von á sam­tals allt að 150 milljóna dala um­bun, ríf­lega 19,6 milljörðum króna, eftir að hafa upp­lýst bandarísk stjórn­völd um að bankinn stæði ekki við lof­orð sitt um að stöðva bandaríska skatt­svikara.

Málið varðar al­var­leg brot á sam­komu­lagi frá árinu 2014, þar sem bankinn hafði heitið því að hætta að að­stoða bandaríska ríkis­borgara við að fela eignir fyrir skatta­yfir­völdum.

Bankinn játaði sök í um­fangs­miklum skatt­svikamálum þar sem bandarískum ríkis­borgurum var hjálpað að fela eignir í Sviss.

Samkvæmt WSJ fól Sam­komu­lagið í sér sektar­greiðslu og lof­orð um að hætta slíkri þjónustu, lof­orð sem bankinn braut.

Endur­tekin brot og ný sekt

Í þessari viku játaði Credit Suis­se á ný sök fyrir að hafa að­stoðað við skatt­svik og samþykkti að greiða 511 milljónir dala í sekt vegna brota á fyrr­nefndu sam­komu­lagi.

Í gögnum málsins kemur fram að bankinn hafi eftir 2014 opnað tugi reikninga fyrir bandaríska við­skipta­vini sem áttu að hafa verið til­kynntir til bandarískra skatta­yfir­valda en voru það ekki.

Alls eru nefndir 475 reikningar sem Credit Suis­se hefði átt að gera grein fyrir og tengdust Bandaríkjamönnum árið 2018, með heildar­eignir að and­virði um 4 milljarða dala.

Arðbært að ljóstra upp um svik

Fyrr­verandi starfs­menn Credit Suis­se, sem af­hentu bandarískum yfir­völdum gögn um svikin, hafa ekki opin­berað nöfn sín af ótta við saksókn sam­kvæmt sviss­neskum banka­leyndar­lögum.

„Þeir finna fyrir rétt­lætingu fyrir að segja sann­leikann, fórna eigin öryggi og stíga upp gegn einni stærstu fjár­mála­stofnun heims,“ sagði lög­maður þeirra, Jef­frey Neiman.

Sam­kvæmt lögum í Bandaríkjunum geta upp­ljóstrarar í skatt­svikamálum fengið 15–30% af inn­heimtum sektar­fjár­hæðum.

Verði endan­leg um­bun 150 milljónir dala yrði þetta ein stærsta um­bun sem bandarísk skatt­yfir­völd hafa greitt í slíku máli.

Til saman­burðar fékk fyrr­verandi banka­starfs­maður hjá UBS greidda um­bun upp á 104 milljónir dala árið 2012. Þá greiddi verðbréfa­eftir­litið (SEC) 279 milljónir dala í sam­bæri­legu máli árið 2023.

Credit Suis­se sam­einaðist UBS árið 2023 og eru þessi lög­fræði­legu eftir­mál því orðin hluti af laga­legri arf­leifð UBS.

Í yfir­lýsingu sagði UBS að félagið væri ánægt með að hafa „leyst enn eitt arf­leifðar­mál Credit Suis­se“ og benti á að kostnaður vegna málsins hefði verið tekinn með í reikninga þegar yfir­takan fór fram.