Íslenska-finnska tölvuleikjafyrirtækið Mainframe Industries sagði upp sautján starfsmönnum samhliða umfangsmikilli endurskipulagningu á rekstrinum á dögunum. Starfsmönnum félagsins fækkar úr 60 í 43, að því er kemur fram í tilkynningu á LinkedIn-síðu félagsins.
Stöðugildum Mainframe á Íslandi fækkar um sex samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Eftir breytinguna starfa 16 starfsmenn hjá tölvuleikjafyrirtækinu hér á landi.
Félagið segir breytinguna vera mjög krefjandi en tekur fram að hún sé nauðsynleg til að tryggja framtíð tölvuleikjaframleiðandans og áframhaldandi þróun á fjölnotendatölvuleikleiknum (MMO) Pax Dei, sem félagið gaf út í „early access“ útgáfu síðasta sumar.
Mainframe segir að þróun fjölnotendaleiks með aðeins 60 manna teymi hafi þegar verið krefjandi áskorun og því þurfi að halda vel á spilunum eftir breytingarnar. Félagið tekur fram að þróun leiksins verði eðli máls samkvæmt hægari fyrri vikið.
Félagið segist áfram stefna að formlegri útgáfu Pax Dei leiksins Mainframe síðar í ár og auk þess sé von á uppfærslu á næstu vikum.
Mainframe var stofnað af þrettán Íslendingum og Finnum árið 2019. Íslensku stofnendurnir höfðu starfað hjá CCP við þróun EVE Online.
Mainframe lauk 3 milljarða króna fjármögnun á seinni árshelmingi 2021 og hafði þá alls safnað um 4,6 milljörðum króna.
Vísisjóðurinn, Andreessen Horowitz eða a16z, leiddi fjármögnunarlotuna og Riot Games, framleiðandi League of Legends, tók einnig þátt. Mainframe var fyrsta fjárfesting a16z og Riot Games á Norðurlöndunum. Íslenski vísisjóðurinn Crowberry Capital er einnig meðal hluthafa félagsins.