Haraldur Þorleifsson stofnandi Ueno átti í orðskiptum við Elon Musk eiganda Twitter í nótt um störf hins fyrrnefnda fyrir samfélagsmiðilinn, sem keypti Ueno árið 2021.
Við kaupin rann Ueno inn í Twitter og Halli – eins og hann er jafnan kallaður – gerðist starfsmaður þar.
Í gærkvöldi ákvað hann að ávarpa Musk, stofnanda rafbílaframleiðandans Tesla og einn ríkasta mann veraldar, beint og opinberlega á samfélagsmiðlinum sjálfum eftir að hafa reynt að fá það á hreint í rúma viku hvort hann væri enn starfsmaður Twitter eftir að lokað var fyrirvaralaust á aðgang hans að vinnugögnum sínum.
Hann hafði þá samband við mannauðsstjóra fyrirtækisins, en sá gat að sögn Halla ekki sagt honum hvort hann væri enn starfsmaður fyrirtækisins eður ei.
Í tístaröð sinni þar sem hann óskaði svara ávarpaði Halli einnig Jack Dorsey, stofnanda Twitter og forstjóra þess þegar kaupin á Ueno fóru fram auk tveggja annarra hluthafa sem hann sagði hafa lýst sér opinberlega sem málsvörum stofnenda. Leiða má að því líkum að hér sé nánar tiltekið átt við stofnendur fyrirtækja sem Twitter hefur yfirtekið.
Laust upp úr miðnætti í gærnótt brást Musk svo við kallinu með því að spyrja Halla við hvað hann hefði verið að fást fyrir hönd fyrirtækisins.
What work have you been doing?
— Elon Musk (@elonmusk) March 7, 2023
Eftir að hafa fengið leyfi Musk til að rjúfa samningsbundinn trúnað upplýsti Halli um að hann hefði meðal annars leitt hagræðingarvinnu sem hafi skilað sér í 500 þúsund dala – ígildi um 70 milljóna króna – sparnaði við aðkeypta hugbúnaðarþjónustu, og stýrt fámennu teymi sem annaðist forgangsröðun hönnunarverkefna fyrir fyrirtækið allt.
Þá hafi hann verið ráðningastjóri í öll hönnunartengd störf innan samfélagsmiðilsins auk þess að leiða vinnu við að færa hönnunarvinnu „upp á annað stig“ og tekið þátt í vinnu við að draga úr áherslu á stórnotendur og auka hana þess í stað á yngra fólk.
Við svo búið sagðist Halli geta haldið áfram að þylja upp verkefni sín innan Twitter, en spurði svo hvort honum væri frjálst að tjá sig um starfshætti fyrirtækisins frá því Musk tók við stjórnartaumunum eftir að hafa keypt með skuldsettri yfirtöku það í haust, og ítrekaði loks upphaflegu spurninguna um stöðu sína innan fyrirtækisins.
Musk spurði þá nánar út í störf hans fyrir Twitter og klykkti út með að vitna í atriði í vel þekktri kvikmynd um skrifstofustörf, hagræðingaraðgerðir og samband starfsfólks við vinnuveitendur sína: Office Space frá 2001. Í atriðinu, sem Musk hengir við svarið, biðja utanaðkomandi ráðgjafar starfsfólk um að lýsa því í eigin orðum hvert hlutverk sitt sé hjá fyrirtækinu, og er undirtónn spurningarinnar og útgangspunktur nokkuð ótvíræður efi um að viðkomandi sé nauðsynlegur starfsemi þess.
Would you say that you’re a people person?https://t.co/kLD9NWHVIT
— Elon Musk (@elonmusk) March 7, 2023
Þessu svaraði Halli með því að árétta að Musk hefði vitanlega fullt vald til að segja sér upp, en venjan væri að fólki væri tilkynnt um slíkt með formlegum hætti svo sem bréfleiðis.
Frekari svör fékk hann hins vegar ekki frá Musk, meðal annars við því hvort staðið yrði við ákvæði samnings síns um starfslokagreiðslu, en hann greinir þó frá því að mannauðsstjórinn hafi loks staðfest við hann í tölvupósti að hann sé ekki lengur starfsmaður Twitter.
Halli birti í kjölfarið samantekt á því sem þeim fór á milli.
But the original question was if I was still employed or not since you or your head of HR haven’t been able to answer that yet.
— Halli (@iamharaldur) March 7, 2023
But she did just miraculously reply so I finally have confirmation that I no longer work at Twitter!!
But was he fired? No, you can’t be fired if you weren’t working in the first place!
— Elon Musk (@elonmusk) March 7, 2023