Við erum með háa vexti af því að við erum að bregðast við miklum hagvexti, miklum launahækkunum og miklum uppgangi,“ sagði Ásgeir Jónsson í erindi á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem stendur nú yfir.

Þar fór hann yfir stöðu efnahagsmála og hvernig Seðlabankinn metur stöðuna og horfur til framtíðar.

Við erum með háa vexti af því að við erum að bregðast við miklum hagvexti, miklum launahækkunum og miklum uppgangi,“ sagði Ásgeir Jónsson í erindi á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem stendur nú yfir.

Þar fór hann yfir stöðu efnahagsmála og hvernig Seðlabankinn metur stöðuna og horfur til framtíðar.

Ásgeir sagði Ísland í sérflokki í Evrópu varðandi hagvöxt á síðastliðnum árum og að Ísland væri raunar „á allt öðrum stað en Evrópa yfir höfuð“.

„Af því að Evrópa hefur í raun og veru ekki náð sér eftir Covid. Þetta á t.d. við um land eins og Svíþjóð þar sem það er enginn hagvöxtur, engar launahækkanir eða takmarkaðar, og lítið sem ekkert að gerast. Þetta á líka við um Evrópu.“

Úr kynningu Ásgeirs.

Samanlagður hagvöxtur hér á landi á árunum 2021 til 2023 sé um 20%, sem Ásgeir lýsir sem gríðarlegu stökki.

„Það hefur síðan reynt á þanþolið hjá okkur almennt séð og líka hjá sveitarfélögunum, þar sem þessi hagvöxtur hefur m.a. verið rekinn áfram af miklum innflutningi af fólki sem hefur komið hingað.

Og annað, það eru launin. Þetta er eitthvað sem sveitarstjórnir finna mjög fyrir. Við erum líka í algjörum sérflokki hvað varðar launahækkanir. Næst þegar verkalýðsfélögin boða til mótmæla á Austurvelli til að mótmæla verðbólgu, þá væri kannski hægt að sýna þeim þessa mynd.“

Það sé „alveg gríðarlega erfitt“ að ætla að halda verðstöðugleika með svona miklar launahækkanir að sögn seðlabankastjóra.

„Ef við værum með evrópskan hagvöxt og ef við værum með evrópsk laun þá gætum við haft evrópska vexti, svo það sé alveg á hreinu,“ sagði Ásgeir.

„Þannig að við erum að hreyfa vexti í samræmi við okkar efnahagslíf og okkar þarfir. Það að við getum tekið upp aðra mynt sisona – sem er ekki hægt [á mjög skömmum tíma] reyndar – það er ekki nein drög að lausn.“

Ásgeir sagði eina leiðin til að taka upp evru sé að ganga inn í ESB „og jafnvel þá getum við heldur ekki fengið nema ef við erum búin að samræma okkar kerfi við evrópska hagkerfið sem getur tekið töluverðan tíma“.

Mættu hafa þetta í huga þeir sitja saman og kvarta á Tene

„Ég get sagt ykkur annað, þjóðirnar í Evrópu hafa enga samúð með okkur þegar við ræðum þetta,“ sagði Ásgeir um efnahagsþróunina hér á landi.

„Sjáið bara raunlaunin í Evrópu. Það kom þessi verðbólguskellur, m.a. vegna hækkunar á gasverði og fólkið [í Evrópu] hefur ekki fengið það bætt. Þannig að borgarar sem eru í Svíþjóð og Þýskalandi sem dæmi, þau eru með sjáanlega minni kaupmátt annað heldur en við. Þetta mættu Íslendingar hafa í huga þegar þeir sitja saman og kvarta á Tene.“

Seðlabankastjóri sagði að verðbólguskotið hér á landi árin 2021-2023 hafi að ákveðnu leyti fylgt verðbólguþróuninni hjá öðrum þjóðum. Verðbólgan erlendis hafi hins vegar stafað af mikilli hækkun gasverðs.

„Það er þannig að Evrópa, sérstaklega Þýskaland, Austur-Evrópa og Mið-Evrópa, eru búin að byggja allt sitt á gasi frá Rússlandi. Þannig að verðbólgan [úti] kemur bara sem mikil hækkun á orkuverði og síðan deyr hún út.

En hjá okkur hefur hún verið mun tregari. Eins og þið vitið þá hefur orkuverð ekki hækkað mikið á Íslandi af því að við erum sjálfum okkar næg varðandi orku að mörgu leyti, grænt hagkerfi sem er mjög jákvætt. En okkur hefur gengið illa að ná henni niður hér, það hefur verið erfitt ferli.“

Hvað verðbólguþróunina hér á landi undanfarin ár þá segir Ásgeir að Covid-faraldurinn hafi verið einn versti skellur sem íslenska hagkerfið hafi orðið fyrir frá seinni heimsstyrjöld. Brugðist hafi verið við með samhæfðu átaki Seðlabankans og stjórnvalda á sínum tíma.

„Og síðan höfum við séð gríðarlega fólksfjölgun. Þetta eru þau vandamál sem við erum að eiga við því fólksfjölgun hefur síðan áhrif á fasteignaverðið sem hefur áhrif á húsaleiguna o.s.frv. sem hefur síðan áhrif á verðbólguna.“

Telur að íbúðamarkaðurinn sé að ná jafnvægi

Hann nefnir einnig að eldsumbrotin á Reykjanesskaganum – sem urðu til þess að finna þurfti önnur heimili fyrir Grindvíkinga sem eru um 1% þjóðarinnar – og áhrif kjarasamninga hafi ýtt undir spennu í hagkerfinu að undanförnu.

Ásgeir tók líka fyrir töluverðar hækkanir á íbúðaverði en hann telur að húsnæðismarkaðurinn sé að komast núna í betra jafnvægi.

„Tölurnar sem ég horfi á yfirleitt er meðalsölutími sem spáir fyrir um fasteignaverð. Hann er að aukast, það er að hægjast á markaðnum. Það kom svona smá alda á markaðinn í vor út af því að… ég held raunar að margir hafi farið af stað til að vera á undan Grindvíkingum að kaupa en það er annað mál.“