Rafskútuferðir voru um fjórðungur af fjölda innstiga í strætó í júní, en notkunin sveiflast mjög eftir árstíðum. Betri innviði skortir fyrir skúturnar samkvæmt rannsóknarskýrslu.
„Við erum búin að vera að fjölga rafskútum og stækka okkar svæði jafnt og þétt. Samt sem áður erum við ekki að ná að anna eftirspurninni. Það er rosalega mikið að gera hjá okkur,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp.
Fyrirtækið hefur vaxið hratt frá stofnun árið 2019 og eru 60 manns á launaskrá hjá fyrirtækinu. Áætlað er að í hið minnsta 220 þúsund ferðir hafi verið farnar í nýliðnum júnímánuði með rafskútuleigunum hérlendis. Á sama tíma voru 860 þúsund innstig í strætó. Því er áætlað að rafskúturnar hafi verið með um fjórðungs hlutdeild af leiðakerfi strætó í júní.
Það gefur að skilja að hlutdeild rafskútnanna er mest þegar veðurskilyrði eru sem best og er fjöldi rafskútnaferða mjög breytilegur á milli árstíða. Það getur reynst erfitt og oft á tíðum hættulegt að ferðast um á rafskútum um hávetur.
Skortur á innviðum fyrir rafskútur
Það hefur borið á því að rafskútum sé illa lagt, bæði hér og í borgum og bæjum annars staðar í heiminum. Þannig er þeim stundum lagt þvert yfir gangstéttar og stíga sem gerir fötluðu fólki sérstaklega erfitt fyrir að komast leiðar sinnar.
Í rannsóknarverkefni VSÓ Ráðgjafar um rafskútur og umferðaröryggi sem kom út í maí í fyrra, segir að reynsla frá öðrum löndum sýni að ein áhrifaríkasta leiðin til að taka á þessu vandamáli sé að búa til skýrt afmörkuð svæði þar sem leyfilegt er að leggja rafskútum.
Það geti verið sérstaklega árangursríkt á svæðum þar sem notkun rafskúta er mikil, til dæmis í miðborgum og við samgöngumiðstöðvar.
„Þegar borgir hafa skilgreint sérstök rafskútusvæði geta hjólaleigurnar hvatt notendur rafskútanna til að leggja í stæðin með því að hafa þau merkt á korti í appinu og jafnvel boðið upp á afslátt af leigunni sé rafskútunni lagt í stæðin,“ segir jafnframt í skýrslunni.