Frá því að rafskútuleigufyrirtækið Hopp kom fyrst allra á markað í september 2019 hefur rafskútum fjölgað jafnt og þétt á höfuðborgarsvæðinu. Í heildina hafa fimm rafskútuleigur starfað á Íslandi, en það eru Hopp, Zolo, Wind, OSS og Kikk.
Þýska rafskútuleigan Wind var um tíma stærsti aðilinn á markaði, en félagið starfaði á Íslandi í rúmlega ár, frá september 2020 til október 2021. Kikk hætti enn fremur rekstri haustið 2020 og var umfangsminni rafskútuleiga en hinar leigurnar.
Aldrei hafa fleiri rafskútur verið til leigu á höfuðborgarsvæðinu en nú og hafa tveir stærstu aðilar á markaðnum, Hopp og Zolo, nýlega þrefaldað og fjórfaldað rafskútuflotann.
Þannig er Hopp, stærsta rafskútuleiga á Íslandi, nú með þrjú þúsund rafskútur á höfuðborgarsvæðinu, Zolo með um 900 og OSS með að minnsta kosti 100. Því eru í heildina rúmlega fjögur þúsund rafskútur sem íbúum á höfuðborgarsvæðinu stendur til boða að leigja, en það eru tífalt fleiri en fyrir tveimur árum þegar þær voru fjögur hundruð talsins.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.