Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. (ÚR), sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, hefur skráð sig fyrir 900 milljón króna fjárfestingu í Thor Landeldi í Þorlákshöfn, sem er gerð í tengslum við fyrirhugaða hlutafjáraukningu í Thor Landeldi.
Áætlað er að ÚR muni eiga um 24,4% beinan og óbeinan eignarhlut í Thor Landeldi í kjölfar fjárfestingarinnar, að því er kemur fram í tilkynningu ÚR.
„Útgerðarfélag Reykjavíkur telur fjárfestingu í Thor Landeldi vera tækifæri til að styðja við sjálfbæra og hátæknivædda matvælaframleiðslu á Íslandi. Fjárfesting í landeldi er að mati ÚR mikilvægt framlag til byggðar, atvinnulífs og vistvænnar framtíðar.“
Thor Landeldi á 20,3 hektara lóð við Laxabraut 35-41 vestan við Þorlákshöfn. Þar er áformuð umfangsmikið laxeldi.
Fjárfestingarsjóðurinn IS Haf fjárfestingar, í rekstri Íslandssjóða, er meðal leiðandi hluthafa Thor Landeldis. Brim, ÚR og íslenskir lífeyrissjóðir eru kjölfestufjárfestar í sjóðnum.