Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) hagnaðist um 71,4 milljónir evra eftir skatta árið 2022, eða sem nemur 10,6 milljörðum króna á gengi dagsins. Til samanburðar hagnaðist félagið um 26,3 milljónir evra árið 2021. ÚR, sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, hyggst greiða 35 milljónir evra, eða um 5,2 milljarða króna, út í arð vegna ársins 2022.
Aukinn hagnað má einkum rekja til 43,5 milljóna evra söluhagnaðar, eða sem nemur 6,5 milljörðum króna, vegna sölu á frystitogaranum Sólborg RE-27 og aflahlutdeild til Brims. Söluverðið nam 88,5 milljónum evra, eða um 13 milljörðum króna, og var greitt með yfirtöku skulda ásamt reiðufé.
Rekstrartekjur ÚR námu 95 milljónum evra í fyrra, eða um 14 milljörðum króna, sem er 23,4% aukning frá fyrra ári. Framlegð jókst um 7,8% og nam 8,5 milljónum evra eða um 1,3 milljörðum króna.
„Rekstur ÚR var góður í fyrra. Veiði fiskiskipa félagsins var góð, afurðasala gekk vel og fengust fín afurðaverð á helstu mörkuðum. Rekstrarkostnaður hækkaði þó umtalsvert vegna hækkandi verðs á olíu og öðrum rekstrarvörum,“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, í afkomutilkynningu.
Meðalfjöldi ársverka hjá ÚR jókst úr 89 í 94 á milli ára. Laun og launatengd gjöld jukust um 50% á milli ára og námu 23,5 milljónum evra, eða um 3,5 milljörðum króna.
Heildareignir ÚR námu 480 milljónum evra í lok árs 2020, eða um 71,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Eigið fé nam 308 milljónum evra eða um 45,8 milljörðum króna.
ÚR er stærsti hluthafi Brims með 33,9% hlut sem er um 52 milljarðar króna að markaðsvirði.