Þórhildur Ólöf Helgadóttir hefur verið forstjóri Íslandspósts í nærri eitt og hálft ár en leiðir hennar og Póstsins lágu upphaflega saman í lok sumars 2019 er hún var ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Á þeim tíma var rekstrarniðurstaða Íslandspósts ekki upp á marga fiska en til marks um það nam samanlagt tap félagsins ríflega 800 milljónum króna árin 2018 og 2019 og skuldaði það um 2,8 milljarða króna. Það var því ærið verkefni sem beið Þórhildar, en hún hóf störf skömmu eftir að Birgir Jónsson, núverandi forstjóri Play, var ráðinn forstjóri Íslandspósts.
Þórhildur segir það hafa blasað við sumarið 2019 að ráðast þyrfti í allsherjar tiltekt innan raða Póstsins og stöðug fækkun bréfsendinga hafi valdið því að tekjur félagsins hafi farið minnkandi ár frá ári. „Með minnkandi bréfamagni er Pósturinn sífellt að missa út meira og meira af tekjustofni sem lengi vel gegndi algjöru lykilhlutverki. Sem dæmi voru tekjur fyrirtækisins ríflega 9 milljarðar króna árið 2017 en þremur árum síðar voru tekjurnar fallnar niður í 7,5 milljarða, aðallega vegna fækkunar á bréfasendingum. Við stóðum því frammi fyrir mikilli áskorun. Reksturinn stóð ekki undir sér og til að rétta skútuna af var ljóst að það þyrfti að fara í erfiðar hagræðingaraðgerðir, sem fólu m.a. í sér uppsagnir. Aðgerðirnar fólust m.a. í að fækka stöðugildum um 300 en í lok síðasta árs voru stöðugildi félagsins 566."
Hún segir hagræðingaraðgerðirnar hafa verið nauðsynlegar í ljósi þess hve skuldsett fyrirtækið var. „Staða félagsins var svo slæm að vorið 2019 átti fyrirtækið varla fyrir því að greiða starfsmönnum laun. Frá þessum tíma hefur fyrirtækið aftur á móti farið úr því að vera í miklum rekstrarvanda yfir í að vera verðmæt eign fyrir ríkissjóð. Af því erum við mjög stolt."
Þórhildur bendir á að hagræðingaraðgerðir hafi einar og sér ekki dugað, heldur hafi stjórnendur einnig þurft að velta fyrir sér þörfum viðskiptavina og hvort Pósturinn væri að ná að mæta þeim. „Það var ljóst að við gátum nýtt okkur tæknilausnir mun betur og var því ákveðið að ráðast í að minnka „stafræna skuld" Póstsins og fara af stað í stafrænt umbreytingarferli. Nýtt app fyrir viðskiptavini og spjallmennið Njáll voru liðir í þeirri vegferð. Þessar lausnir hafa einfaldað flæði upplýsinga til viðskiptavina og gert þeim kleift að sérsníða þjónustuna að sínum þörfum."
Póstboxavæðingin hafi einnig leikið lykilhlutverk í umbreytingarferlinu. „Við keyptum þrjátíu póstbox árið 2020 og tólf árið 2021, sem dreift var um landsbyggðina. Í ár stefnum við svo á að taka í notkun sextíu ný póstbox. Póstbox eru afgreiðslustaðir þar sem fólk getur nálgast og sent póstsendingar hvenær sem er alla daga ársins. Póstboxin gera okkur kleift að veita viðskiptavinum val um hvar þeir sækja póstþjónustu og hvenær sólarhringsins," segir Þórhildur og bætir við að póstboxin hafi reynst sérlega vel í kjölfar útbreiðslu Covid-19 faraldursins og þá miklu aukningu í netverslun sem faraldurinn hafði í för með sér.
Nánar er rætt við Þórhildi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .