Félagið KTS ehf., sem er í eigu Sturlu Björns Johnsen, Teits Guðmundssonar og Kristjáns M. Grétarssonar, greiddi 365 hf. 1,75 milljarða króna fyrir Urðarhvarf 14. Þetta kemur fram í kaupsamningi milli félaganna sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Umrædd fasteign er 4.800 fermetra skrifstofuhúsnæði en 365, sem er nær alfarið í eigu fjárfestisins Ingibjargar Pálmadóttur, keypti skrifstofuhúsnæðið árið 2019 á tæplega 1,5 milljarða króna.
Kaupendurnir reka heilsugæslustöð Heilsuverndar í sama húsi. Í samtali við Viðskiptablaðið í desember sagði Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, að ekki stæði til að gera breytingar á starfsemi húsnæðisins.
Kaupverðið var meðal annars greitt með peningagreiðslu, yfirtöku skulda og verslunarrými í Glæsibæ, þar sem apótek Lyfsalans er til húsa. Kristján M. Grétarsson á 37% hlut í Lyfsalanum og Magnús Ármann 50% hlut, en hann var á árunum fyrir bankarunið bæði stjórnarmaður og stór hluthafi í 365, FL Group og fleiri félögum hér á landi.