Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 2,42% í við­skiptum dagsins og var loka­gildi vísitölunnar 2.850,91 stig. Úr­vals­vísi­talan hefur aldrei verið hærri á árinu eftir um 16% frá árs­byrjun.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech leiddi hækkanir á aðal­markaði í dag er gengi félagsins fór upp um tæp 6% í ríf­lega hálfs milljarðs við­skiptunum.

Í morgun var greint frá því að hluta­bréf félagsins hafi verið tekin inn í Líftækni­vísitölu Nas­daq (NBI) við ár­lega endur­skoðun hennar. Breytingin tekur gildi við opnun markaða í Bandaríkjunum í dag.

Til þess að vera tekin inn í Líftækni­vísitölu Nas­daq þurfa félög að vera skráð á markað í Bandaríkjunum, flokkuð þar sem líftækni­fyrir­tæki eða lyfja­fyrir­tæki og upp­fylla ýmis önnur skil­yrði, svo sem um lág­marks­markaðsvirði og dag­lega meðal­veltu hluta­bréfa.

Vísi­talan er reiknuð út frá vegnu markaðsvirði.

Marel kveður í núverandi mynd

Gengi Marels hækkaði um rúm 5% á síðasta við­skipta­degi félagsins í Kaup­höllinni en stjórn Marels samþykkti á fundi í dag að óska eftir af­skráningu hluta­bréfa félagsins hjá Nas­daq Iceland og á Euronext Amsterdam, eins fljótt og auðið er í samræmi við reglur sem um það gilda.

Ákvörðun stjórnar fylgir í kjölfar samþykkis hlut­hafa Marel, sem eiga um það bil 97,5% af út­gefnum og útistandandi hlutum í félaginu, á val­kvæðu yfir­töku­til­boði JBT Cor­por­ation, sem til­kynnt var um föstu­daginn.

Hluta­bréf sam­einaðs félags, JBT Marel Cor­por­ation (JBTM), verða áfram skráð í Kauphöllina í New York (NYSE) og tvískráð á Nas­daq Iceland, en samþykki Nas­daq Iceland á tvískráningu félagsins á markað liggur þegar fyrir.

Gert er ráð fyrir að hluta­bréf JBTM verði tekin til við­skipta á bæði NYSE og Nas­daq Iceland þann 3. janúar 2025.

Hluta­bréf í Ís­lands­banka hækkuðu um tæp 3% í um 262 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi bankans var 124,5 krónur sem sam­svarar um 19% hækkun á árinu.

Gengi Hampiðjunnar leiddi lækkanir á markaði er gengi félagsins fór niður um rúm 2% í örviðskiptum.

Gengi Hampiðjunnar hefur nú lækkað um rúm 25% á árinu.