Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 2,42% í viðskiptum dagsins og var lokagildi vísitölunnar 2.850,91 stig. Úrvalsvísitalan hefur aldrei verið hærri á árinu eftir um 16% frá ársbyrjun.
Hlutabréfaverð Alvotech leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi félagsins fór upp um tæp 6% í ríflega hálfs milljarðs viðskiptunum.
Í morgun var greint frá því að hlutabréf félagsins hafi verið tekin inn í Líftæknivísitölu Nasdaq (NBI) við árlega endurskoðun hennar. Breytingin tekur gildi við opnun markaða í Bandaríkjunum í dag.
Til þess að vera tekin inn í Líftæknivísitölu Nasdaq þurfa félög að vera skráð á markað í Bandaríkjunum, flokkuð þar sem líftæknifyrirtæki eða lyfjafyrirtæki og uppfylla ýmis önnur skilyrði, svo sem um lágmarksmarkaðsvirði og daglega meðalveltu hlutabréfa.
Vísitalan er reiknuð út frá vegnu markaðsvirði.
Marel kveður í núverandi mynd
Gengi Marels hækkaði um rúm 5% á síðasta viðskiptadegi félagsins í Kauphöllinni en stjórn Marels samþykkti á fundi í dag að óska eftir afskráningu hlutabréfa félagsins hjá Nasdaq Iceland og á Euronext Amsterdam, eins fljótt og auðið er í samræmi við reglur sem um það gilda.
Ákvörðun stjórnar fylgir í kjölfar samþykkis hluthafa Marel, sem eiga um það bil 97,5% af útgefnum og útistandandi hlutum í félaginu, á valkvæðu yfirtökutilboði JBT Corporation, sem tilkynnt var um föstudaginn.
Hlutabréf sameinaðs félags, JBT Marel Corporation (JBTM), verða áfram skráð í Kauphöllina í New York (NYSE) og tvískráð á Nasdaq Iceland, en samþykki Nasdaq Iceland á tvískráningu félagsins á markað liggur þegar fyrir.
Gert er ráð fyrir að hlutabréf JBTM verði tekin til viðskipta á bæði NYSE og Nasdaq Iceland þann 3. janúar 2025.
Hlutabréf í Íslandsbanka hækkuðu um tæp 3% í um 262 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi bankans var 124,5 krónur sem samsvarar um 19% hækkun á árinu.
Gengi Hampiðjunnar leiddi lækkanir á markaði er gengi félagsins fór niður um rúm 2% í örviðskiptum.
Gengi Hampiðjunnar hefur nú lækkað um rúm 25% á árinu.