Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% í 3,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Úrvalsvísitalan stóð í 2.372 stigum við lokun Kauphallarinnar og hefur ekki verið hærri frá 7. september síðastliðnum. Vísitalan hefur hækkað um 13% á einum mánuði‏.

Fimmtán félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og átta lækkuðu. Smásölufyrirtækið Festi hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,3% í 662 milljóna veltu. Gengi Festi stendur nú í 188,75 krónum á hlut eftir 7,5% hækkun á einni viku.

Meðal annarra félaga sem hækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins eru Arion banki, Eimskip, Amaroq Minerals og Marel.

Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 1,5% í 230 milljóna veltu og stendur nú í 1,35 krónum á hlut. Gengi Play hækkaði sömuleiðis um 1,3% í dag. Hækkun á hlutabréfaverði flugfélaganna kann að tengjast því að flugumferðarstjórar aflýstu boðuðum verkfallsaðgerðum vegna óvissuástands í kringum gosið á Reykjanesskaganum.

Hlutabréfaverð tveggja félaga lækkaði um meira en 1% i dag en það voru Nova og Síldarvinnslan.