Úrvalsvísitalan hækkaði fjórða viðskiptadaginn í röð og var lokagildi hennar 2.387,52 sem mun vera hæsta lokagildi OMXI15 frá því í marsmánuði.
Hlutabréfaverð flugfélaganna leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi Icelandair fór upp um tæp 9% í 702 milljón króna viðskiptum á meðan gengi Play fór upp um rúm 7% í örviðskiptum sem námu 5 milljónum króna.
Gengi Icelandair stóð í 0,864 krónum á fyrsta viðskiptadegi mánaðarins og hefur það því hækkað um tæp 30% það sem af er septembermánuði.
Forsíðufrétt Financial Times í morgun hefur að öllum líkindum haft áhrif á gengishækkanir flugfélaganna í dag en breski viðskiptamiðillinn greindi frá því í morgun að Sádi Arabía væri að láta af áformum sínum um að þrýsta verðinu á tunnu af Brent hráolíu upp í 100 dali.
Sádi Arabía, í samfloti með OPEC+ olíuríkjunum, hefur verið að skerða olíuframleiðslu á árinu í von um að þrýsta verðinu upp. Það tókst um tíma og stóð tunnan af Brent-hráolíu í um 90 dölum í apríl á þessu ári.
Heimsmarkaðsverð á tunnunni af Brent-hráolíu stendur í rúmum 71 Bandaríkjadal í dag eftir um 17% lækkun síðustu sex mánuði. Samkvæmt FT mun konungríkið auka framleiðsluna 1. desember en Brent-hráolía er meðal annars notuð í flugvélaeldsneyti.
Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq hækkaði einnig verulega í dag er gengið fór upp um tæp 7%. Um 350 milljón króna velta var með gengi félagsins.
Gengi Amaroq byrjaði mánuðinn á vænri dýfu og fór gengið niður í 100 krónur þann 12. september. Hlutabréf málmleitarfélagsins hafa verið á stöðugri uppleið síðan þá og var dagslokagengið 124,5 krónur. Gengi hefur því hækkað um 24,5% á rúmum tveimur vikum.
Gengi Skaga leiddi lækkanir á aðalmarkaði í dag og fór niður um tæp 2% í rúmlega 100 milljón króna veltu.
OMXI15 hækkaði um 0,97% í dag og var heildarvelta á markaði 5,3 milljarðar.