Úrvalvísitalan OMXI15 hefur hækkað um 12,7% síðastliðinn mánuð er hlutabréfamarkaðurinn hér heima hefur verið að taka við sér. Lokagildi úrvalsvísitölunnar var 2.555,56 og hefur vísitalan ekki verið hærri frá því í byrjun febrúar.
Aðeins þrjú félög á aðalmarkaði hafa lækkað síðastliðinn mánuð og ekkert þeirra um meira en 2%. Hlutabréfaverð Eimskips hefur lækkað um 1,5%, Ölgerðarinnar um 1,2% og Sýnar um 0,5%.
Gengi Amaroq og Icelandair hafa leitt hækkanir síðastliðinn mánuð en gengi beggja félaga hefur hækkað um 32% á tímabilinu.
Gengi Play hefur sömuleiðis einnig verið á mikilli uppleið og farið upp um 21%.
Hlutabréfaverð Oculis, sem tók óvænt stökk í byrjun október, hefur síðan hækkað um rúm 22%.
Enn hækkar Oculis
Oculis leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag og fór gengi líftæknilyfjafélagsins upp um 3% í 246 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi félagsins var 2060 krónur og hefur aldrei verið hærra.
Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar leiddi lækkanir er gengið fór niður um rúm 2% í 26 milljón króna veltu.
Heildarvelta á markaði nam 6 milljörðum króna.