Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði þriðja viðskiptadaginn í röð en það hefur ekki gerst frá því í um fjórar vikur.
Vísitalan stóð í 2265,272 stigum á miðvikudaginn en lokaði í 2289,86 stigum í dag eftir um 0,34% hækkun í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Skaga leiddi hækkanir í dag er gengi samstæðunnar fór upp um tæp 4% í 112 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Heima hækkaði um tæp 3% í viðskiptum dagsins en gengi fasteignafélagsins hefur nú hækkað um rúm 15% síðastliðinn mánuð og 25% það sem af er ári. Dagslokagengi Heima var 30 krónur.
Hlutabréfaverð Marels hækkaði um 1,5% í 403 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengið 503 krónur. Hlutabréfaverð Marels hefur ekki verið hærra síðan í lok júlímánaðar.
Heildarvelta á markaði var 2,3 milljarðar.