Úrvalsvísitalan OMXI10 lækkaði um 1,5% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um rúm 28% frá áramótum. Heildarvelta á markaði nam þremur milljörðum króna.
Mest velta var með bréf bankanna þriggja á markaði. Viðskipti með bréf Arion banka námu 900 milljónum króna og lækkaði gengi bréfa bankans um 1,25%. Þá námu viðskipti með bréf í Íslandsbanka 340 milljónum og lækkaði gengi bankans um 1,15%. Viðskipti með bréf Kviku banka námu 416 milljónum og lækkaði hlutabréfaverð í bankanum um 1,9%.
Iceland Seafood lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 3,9% í 20 milljón króna viðskiptum. Þá lækkaði Icelandair um 3,3% í 190 milljóna veltu.
Marel, sem hefur lækkað um tæp 50% frá áramótum, lækkaði um 2,5% í viðskiptum dagsins og stendur gengi félagsins í 437 krónum.
Gengi bréfa sex félaga hækkaði í dag. Þá hækkaði Origo mest þeirra, um 2,3% í 120 milljóna veltu.
Á First North lækkaði Play um 3,1% í 27 milljón króna viðskiptum. Þá lækkaði Hampiðjan um 2,1%, Alvotech um 3,6% og Kaldalón um 2,5%.