Kauphöllin var rauð í 2,5 milljarða króna veltu í dag en hlutabréf þrettán af 22 félaga Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins. Lækkanir á íslenska markaðnum má m.a. rekja til markaðarins vestanhafs en helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu um 4% eða meira í gær eftir birtingu neikvæðra verðbólgutalna.

Sjá einnig: Versti dagur á Wall Street í rúm tvö ár

Sýn og Ölgerðin voru einu félögin á aðalmarkaðnum sem hækkuðu í dag. Gengi Ölgerðarinnar hækkaði um 1,4% í 320 milljóna króna veltu og endaði daginn í 11,2 krónum á hlut. Dagslokagengi Ölgerðarinnar hefur aldrei verið hærra frá skráningu í júní síðastliðnum.

Kvika banki lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,4% í 164 milljóna króna viðskiptum. Gengi Kviku stendur nú í 20,6 krónum á hlut, um 23% lægra en í byrjun árs. Gengi Síldarvinnslunnar lækkaði einnig um 2%, þó í lítilli veltu, og stendur í 119 krónum.

Fimm önnur félög lækkuðu um meira en 1% í dag en það Íslandsbanki, Sjóvá, Nova, Icelandair og Brim.