Íslenska úrvalsvísitalan hefur fallið um meira en 2% í fyrstu viðskiptum dagsins og hefur ekki verið lægri frá því í byrjun árs 2021. Það sem af er degi hefur mesta veltan verið með hlutabréf Ölgerðarinnar, eða um 170 milljónir króna, sem hafa fallið um rúm 2% og standa nú í 9,8 krónum á hlut.

Sömu sögu er að segja um þróun á evrópskum hlutabréfamörkuðum. Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um rúm 2% í dag og breska FTSE 100 vísitalan hefur fallið um 1,8%. Þá gefa framvirkir samningar á hlutabréfamarkaðnum vestanhafs til kynna að S&P 500 vísitalan muni lækka um meira en 2% við opnun markaða. Auk þess tók verð á rafmyntum dýfu um helgina.

Sjá einnig: Bitcoin lækkar um meira en 10%

Væntingar er um að Seðlabanki Bandaríkjanna muni lýsa því yfir á vaxtaákvörðunarfundi í vikunni að hann ætli að hækka stýrivexti hratt á næstunni til að ná tökum á vaxandi verðbólgu, að því er kemur fram í frétt Financial Times. Á föstudaginn síðasta var greint frá því að verðbólga í Bandaríkjunum hafi mælst 8,6% í síðasta mánuði en hún hefur ekki verið meiri þar í landi í fjóra áratugi.

Ávöxtunarkrafa á tveggja ára bandarískum ríkisskuldabréfum, sem endurspegla meðal annars verðbólguvæntingar, hækkaði um 0,16 prósentustig í dag og náði 3,21% í morgun. Munurinn á kröfunni á 2 ára og 10 ára ríkisbréfum fór niður í tvo punkta í morgun og er því við það að snúast við. Öfugur vaxtaferill hefur oft verið talinn merki um að samdráttur sé í vændum.

Þá gera 70% af hagfræðingum sem FT leitaði til ráð fyrir samdrætti í bandaríska hagkerfinu á næsta ár.