Sextán af 22 félögum aðalmarkaðarins eru græn í fyrstu viðskiptum dagsins og úrvalsvísitalan hefur hækkað um tæplega 2% í dag. Icelandair leiðir hækkanir en hlutabréfaverð flugfélagsins hefur hækkað um 4,4% frá opnun Kauphallarinnar og stendur í 1,51 krónu á hlut þegar fréttin er skrifuð.
Skel fjárfestingafélag fylgir þar á eftir en gengi félagsins hefur hækkað um 4,4% og stendur nú í 16,8 krónum á hlut.
Hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni, Arion, Kviku og Íslandsbanka, hafa hækkað um meira en 2% í dag.
Mesta veltan hefur verið með hlutabréf Símans sem hafa lækkað um 0,8% í dag. Síminn sendi frá sér tilkynningu eftir lokun markaða í gær þar sem fram kom að Samkeppniseftirlitið muni ekki samþykkja sölu á Mílu, dótturfélagi Símans, til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian án skilyrða og/eða með frekari útskýringum af hálfu samrunaaðila.