Töluvert er um hækkanir í Kauphöllinni í morgun en Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 3% í fyrstu viðskiptum. Tíu félög hafa hækkað um meira en 2% frá opnun Kauphallarinnar.
Hækkanir í Kauphöllinni má eflaust rekja til mikilla hækkana á bandaríska hlutabréfamarkaðnum eftir birtingu verðbólgutalna í gær.
Þrjár helstu bandarísku hlutabréfavísitölurnar hækkuðu um 3,7%-7,4% í gær og áttu allar sinn besta dag frá því að markaðir tóku við sér um mitt ár 2020 eftir dýfu í byrjun Covid-faraldursins.
Kvika tekur stökk eftir uppgjörið
Eimskip og Sjóvá leiða hækkanir en gengi félaganna tveggja hafa hækkað um ríflega 5,4% í morgun.
Mesta veltan það sem af er degi með hlutabréf Kviku banka sem hafa hækkað um 4,6%. Gengi Kviku stendur nú í 19,3 krónum. Kvika birti uppgjör fyrir þriðja fjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta hjá Kviku á þriðja fjórðungi var 17,7% og var því 12,3% á fyrstu níu mánuðum ársins.