Alls skiluðu 31.274 einstaklingar inn tilboðum í tilboðsbók A í útboði á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Fjármálaráðuneytið sagði í tilkynningu í gær að eftirspurn hefði verið fordæmalaus innanlands.
Í ljósi mikillar þátttöku almennings í útboðinu verður hér rifjuð upp nokkur fjölmenn almenn hlutafjárútboð á eignarhlutum í bönkum hér á landi.
Búnaðarbanki Íslands hf.
Í desember 1998 nýtti bankaráð Búnaðarbankans sér heimild hluthafafundar til aukningar á hlutafé í bankanum. Alls var boðið til sölu í almennri áskrift hlutafé að nafnvirði 350 milljónir króna á genginu 2,15.
Búnaðarbankinn sá sjálfur um útgáfu útboðslýsingar og hafði umsjón með móttöku áskrifta. Við hlutafjárútboð í Búnaðarbankanum var einnig boðið upp á lán til að fjármagna kaupin á bréfunum. Voru lánskjör sérstaklega tilgreind í útboðslýsingu.
Rúmlega 90.000 manns skráðu sig fyrir hlut í bankanum, að því er kemur fram í skýrslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem birt var í maí 1999.
Landsbanki Íslands hf.
Í september og október 1998 fór fram útboð á nýju hlutafé í Landsbanka Íslands hf. Almenningi gafst kostur á að taka þátt í áskriftarsölu, starfsmenn fengu tækifæri til að kaupa og lítill hluti var boðinn í tilboðssölu.
Í áskriftarsölunni tóku þátt um 12.200 manns. Í skýrslunni kemur fram að það hafi verið mun meiri þátttaka en áður hafði þekkst í samsvarandi útboðum.
Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.
Ríkið seldi 49% hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. árið 1998. Útboðið fór fram á tímabilinu 30. október – 12. nóvember 1998 og skráðu 10.734 einstaklingar sig í útboðinu fyrir um 18,9 milljarða króna að söluvirði. Til sölu höfðu hins vegar aðeins verið 4.665 milljónir króna og var því gripið til skerðinga.
Frumútboð Íslandsbanka hf.
Íslandsbanki var skráður í Kauphöllina að undangengnu almennu hlutafjárútboði í júní 2021 þar sem ríkið seldi 35% eignarhlut fyrir 55,3 milljarða króna.
Tæplega 24 þúsund hluthafar eignuðust hlut, og var bankinn á þeim tíma með mesta fjölda hluthafa allra skráðra fyrirtækja á landinu.