Þýski sandalaframleiðandinn Birkenstock fer á markað á morgun og verður útboðsgengið 46 dalir á hlut sem samsvarar rúmlega 6300 íslenskum krónum.
Samkvæmt útboðsgenginu er virði fyrirtækisins um 8,6 milljarðar Bandaríkjadala sem samsvarar ríflega 1200 milljörðum íslenskra króna.
Í útboðinu stefnir þýski inniskóaframleiðandinn á að bjóða út 10,75 milljónir nýrra hluta í fyrirtæki ásamt því að stærsti hluthafi félagsins, fjárfestingarfélagið L Catterton, hyggst einnig minnka hlut sinn með því að selja 21,51 milljón hluta.
Birkenstock fær auðkennið BIRK í kauphöllinni í New York en umsjónaraðilar eru Goldman Sachs, JPMorgan Chase og Morgan Stanley.
Í síðustu viku var greint frá því að norski olíusjóðurinn áætlar að kaupa hlutabréf fyrir 300 milljónir dala.
Fjárfestar vestanhafs eru sagðir óttast að útboðsgengið muni ekki halda lengi en félög eins og Instacart, Arm og Kellanova hafa öll séð gengið lækka hægt og rólega eftir frumútboð.
Að mati greiningaraðila eru neytendur að einblína á að kaupa ódýrar neysluvörur í þessu efnahagsástandi og því gæti verið líklegt að sölutölur fyrirtækisins munu lækka á næstu mánuðum eftir mikla aukningu síðustu ár.
L Catterton keypti meirihluta hlutafjár í Birkenstock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðsvirði fyrirtækisins metið á 4 milljarða Bandaríkjadala. Tveir meðlimir í Birkenstock-fjölskyldunni eru enn minnihlutahluthafar í fyrirtækinu.
Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catterton að fyrirtækið ætlaði að sækja fram á Asíumarkaði, sérstaklega í Kína og Indlandi.
Um 3000 starfsmenn vinna hjá Birkenstock og framleiðir fyrirtækið sandala sína í verksmiðjum í Þýskalandi.
Eignarhaldsfyrirtækið L Catterton varð til árið 2016 þegar LVMH og eignarhaldsfyrirtæki Bernhard Arnault fjölskyldunnar sameinuðust bandaríska eignarhaldsfyrirtækinu Catterton.