Um leið og áform ríkisstjórnarinnar um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja birtust í samráðsgátt stjórnvalda um miðjan júlímánuð lækkaði verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til skamms tíma verulega enda vegur bensín- og dísilverð þungt í vísitölu neysluverðs.
Með lögunum kemur kílómetragjald í stað olíu- og bensíngjalda, sem nú eru greidd við kaup á jarðefnaeldsneyti en slík gjöld verða felld brott.
Hagfræðingar eru flestir sammála um að áformin gætu haft áhrif á vísitölu neysluverðs þar sem eldsneytisverð mun lækka verulega en að öllum líkindum mun kílómetragjaldið ekki leiða til hækkunar þar sem það er ekki eyrnamerkt vegaframkvæmdum.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á blaðamannafundi peningastefnunefndar í vikunni að nefndin telji að gjaldið muni ekki hafa veruleg áhrif á vísitöluna þar sem gjöld muni hækka á móti.
Hann sagði þó útfærslu ríkisstjórnarinnar á gjaldinu og hvernig Hagstofan muni reikna það skipta máli í því samhengi. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni þarf kolefnisgjaldið að hækka töluvert til þess að ná upp í 1,5% af VLF líkt áform standa til.
Hann sagði þó útfærslu ríkisstjórnarinnar á gjaldinu og hvernig Hagstofan muni reikna það skipta máli í því samhengi. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni þarf kolefnisgjaldið að hækka töluvert til þess að ná upp í 1,5% af VLF líkt áform standa til.
Spurður um hvort breytingin muni lækka verðbólgu án verðbólguþrýstings, segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, að útfærslan skipti öllu máli.
„Það fer eftir hvernig þetta verður skilgreint. Við sendum fyrirspurn á Hagstofuna sem svaraði því að ef bæði fyrirkomulag gjaldtökunnar sjálfrar og ráðstöfun fjárins er skýrt afmarkað, ekki ósvipað gjaldtökunni í Hvalfjarðargöngum á sínum tíma, þá væri hægt að túlka þetta sem gjaldtöku sem í rauninni myndi ekki hafa áhrif á þennan lið í vísitölu neysluverðs nema hugsanlega á mun hversu háar upphæðir eru í gjaldtökunni á móti núverandi skattlagningu. En þá yrðu áhrifin minni háttar“.
„Á hinn bóginn ef þetta verður eins og þegar útvarpsgjaldið tók við af afnotagjöldum þá getur undirvísitalan fyrir bensín- og dísilverð lækkað verulega, jafnvel um þriðjung eða svo, og áhrifin á vísitölu neysluverðs yrðu þá í kringum prósentuna.“
Hagstofan sagðist ekki gæti kveðið endanlega upp áhrifin á vísitölu neysluverðs fyrr en útfærsla á gjaldtöku stjórnvalda lægi fyrir.
Spurður um hvaða áhrif frumvarpið gæti haft á skuldabréfamarkaðinn, segir Jón Bjarki nokkrar sviðsmyndir mögulegar.
„Við gætum alveg átt inni einhverja frekari lækkun á skammtímaálagi af því að fólk er að reikna eftir einhverjum líkum sem það metur sjálft á hvor leiðin verður farin. Þannig það er ekki búið að verðleggja þetta að fullu. Ef það kemur í ljós að þetta verður eyrnamerkt og lækkunaráhrifin verða engin í rauninni um áramótin þá á það eftir að keyra upp verðbólguálagið annaðhvort með lækkun á kröfu verðtryggðu bréfanna eða hækkun á kröfu óverðtryggðu bréfanna,“ segir Jón Bjarki og bætir við að seinni kosturinn sé líklegri.
Jón Bjarki segir að verðbólguálagið gæti þó alveg dregist enn meira saman ef áhrifin verða til lækkunar á VNV.
„En það nær bara yfir næsta ár. Verðbólga í janúar 2026 yrði sú sama og ef þessu yrði ekki breytt. Að minnsta kosti beinu áhrifin,“ segir Jón Bjarki. Að hans mati ætti peningastefnunefnd að horfa fram hjá þessari mögulegri lækkun á verðbólgu við vaxtaákvarðanir sínar en af því að verðbólguvæntingar eru losanlegar þá gætu óbeinu áhrifin verið einhver.
„Væntingar á markaði, almennings og fyrirtækja, þær verða trúlega fyrir meiri áhrifum af þessari breytingu heldur en ef kjölfesta peningastefnunnar væri sterk og langtímaverðbólguvæntingar stöðugar. Að því leyti gæti þetta hjálpað til ef undirliggjandi verðbólga er að hjaðna á þessu tímabili líka,“ segir Jón Bjarki.