Þrátt fyrir að vöru­skipta­halli sé að aukast hefur hann ekki aukist eins mikið á milli ára í ár og síðustu tvö ár, sam­kvæmt greiningar­deild Lands­bankans.

Síðasta ára­tug hefur verið viðvarandi vöru­skipta­halli og því sé hann viðbúinn að mati bankans en þó séu jákvæð teikn á lofti.

Í október jukust út­flutnings­verðmæti eldis­fisks um 26% á milli ára á föstu gengi og það sem af er ári hafa verðmætin aukist um 24% á milli ára.

„Út­flutnings­verðmæti lyfja og lækninga­vara færast nokkuð hratt í aukana og nú í október voru út­flutnings­verðmæti þeirra um 84% meiri en í fyrra. Það sem af er ári hafa út­flutnings­verðmæti aukist um 57% á milli ára á föstu gengi,“ segir í Hag­s­já Lands­bankans.

Annar út­flutningur hefur staðið nokkurn veginn í stað það sem af er ári, samkvæmt greiningardeildinni.

Verðmæti vöru­inn­flutnings jókst um 6% á milli ára á föstu gengi í október en það sem af er ári hafa verðmætin aukist um 1%.

„Inn­flutningur fjár­festingar­vara jókst um 2% á milli ára í október á föstu gengi, en það sem af er ári hefur inn­flutningur á fjár­festingar­vörum aukist um 4%. Nokkuð hefur hægt á inn­flutningi fjár­festingar­vara eftir því sem liðið hefur á árið,“ segir í hag­s­já bankans.

Í ný­legri hag­spá Lands­bankans er gert ráð fyrir litlum breytingum á fjár­festingu á seinni hluta ársins og segir bankinn gögnin styðja þá spá.

Inn­flutningur á hrávörum jókst hins vegar um 30% í október og hafa inn­flutnings­verðmæti hrávara aukist um 8% á föstu gengi það sem af er ári.

Þá jókst inn­flutningur á neyslu­vörum um 11% í október og hefur aukist um 7% það sem af er ári á föstu gengi.

Á móti hefur inn­flutningur á fólks­bílum dregist tölu­vert saman það sem af er ári, eða um 48%. Við spáum lítilli aukningu í einka­neyslu á árinu.