Sjávarútvegsfyrirtækið Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, fjárfesti á síðasta ári í íslensku bátasmiðjunni Rafnar ehf.
Rafnar er bátasmiðja sem Össur Kristinsson, stofnandi stoðtækjafyrirtækisins Össurar, stofnaði. Fjárfesting ÚR í Rafnari fólst annars vegar í kauprétti og hins vegar í skuldabréfi með breytirétti að fjárhæð 400 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi samstæðu ÚR.
Á fundi stjórnar Rafnars frá því í febrúar á þessu ári bættust við tveir nýir meðlimir í stjórn félagsins frá ÚR. Það voru þeir Jónas Engilbertsson og Runólfur Viðar Guðmundsson framkvæmdastjóri ÚR.
Rafnar hefur hingað til verið í eigu OK eignarhaldsfélags sem er í eigu Össurar Kristinssonar og fjölskyldu hans. Bátar á vegum Rafnars eru byggðir samkvæmt einkaleyfisvarinni hönnun Össurar Kristinssonar og voru smíðaðir hér á landi til að byrja með. Í dag fer framleiðslan fram á Íslandi, í Grikklandi, Bretlandi, Tyrklandi, Hollandi, Mallorca og í Bandaríkjunum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.