Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 4,2 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan hækkuðu um 4%-6% í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Brims hækkaði um 6% í 650 milljóna viðskiptum og stendur nú í 87,5 krónum. Gengi félagsins hefur ekki verið hærra síðan í september. Þá hækkaði hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar um 4% í 240 milljóna veltu og stendur nú í 118,5 krónum. Fiskistofa birti í gær úthlutun aflamarks í loðnu fyrir vetrarvertíðina 2022/2023. Auk þess hefur íslenska krónan veikst töluvert síðustu daga.
Þá hækkuðu hlutabréf Origo um 3,7% í hundrað milljóna veltu en félagið tilkynnti í morgun um tillögu um 24 milljarða króna útgreiðslu til hluthafa í kjölfar sölu á 40% hlut í Tempo fyrir 28 milljarða í síðasta mánuði. Gengi Origo stóð í 84,5 krónum við lokun Kauphallarinnar og hefur aldrei verið hærra.
Hlutabréfaverð Icelandair féll um 3,4% í 160 milljóna veltu og stendur nú í 1,71 krónu á hlut. Gengi Marels féll sömuleiðis um 1,9% í nærri 400 milljóna viðskiptum og nemur nú 476 krónum.