Viðskiptaráð gagnrýnir harðlega stefnu stjórnvalda þegar kemur að einkunnagjöf í grunnskólum. Ráðið segir að frá því að samræmd próf voru lögð niður árið 2009 hafi afturför íslenskra grunnskólabarna verið samfelld.

Viðskiptaráð gagnrýnir harðlega stefnu stjórnvalda þegar kemur að einkunnagjöf í grunnskólum. Ráðið segir að frá því að samræmd próf voru lögð niður árið 2009 hafi afturför íslenskra grunnskólabarna verið samfelld.

„Að mati Viðskiptaráðs er löngu orðið ljóst að afnám samræmdra prófa voru mistök. Í stað þess að halda áfram á rangri braut ættu stjórnvöld að vinda ofan af þessum mistökum og tryggja á ný samræmda árangursmælikvarða í íslensku grunnskólakerfi,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs um áform mennta- og barnamálaráðuneytis um breytingu á lögum um grunnskóla.

Hvetja framhaldsskóla að taka upp inntökupróf

Viðskiptaráð lýsir áformunum sem síðasta skrefinu á vegferð stjórnvalda til að afnema samræmda árangursmælikvarða í íslenskum grunnskólum. Ráðið segir áformin vera sett fram á sama tíma og neyðarástand ríkir í íslensku grunnskólakerfi og vísar þar í niðurstöður PISA-kannana.

Stjórnvöld lögðu samræmd próf niður árið í þeim skilningi að ekki mátti lengur styðjast við þau við inntöku í framhaldsskóla. Í stað komu svokölluð samræmd könnunarpróf, sem stjórnvöld hættu að leggja fyrir nemendur tímabundið árið 2022 til næstu áramóta. Verði áformin að lögum verður sú tímabundna niðurfelling gerð varanleg.

Mynd tekin frá Viðskiptaráði.
Mynd tekin frá Viðskiptaráði.

Viðskiptaráð kallar eftir að stjórnvöld hverfi frá áformum um endanlegt afnám samræmdra könnunarprófa og lögfesti heimild framhaldsskóla til að notast við samræmd próf við inntöku nýnema.

„Í millitíðinni hvetur Viðskiptaráð framhaldsskóla til að taka upp inntökupróf upp á eigin spýtur. Þannig geta skólarnir tryggt jafnræði án tafar þegar umsækjendur eru fleiri en pláss leyfa. Þessi inntökupróf mætti síðan afleggja þegar stjórnvöld hafa lokið við að koma aftur á fót samræmdum árangursmælikvörðum sem skólarnir geta nýtt við inntöku nýnema.“

Umfang einkunnaverðbólgu geti ráðið tækifærum barna

Viðskiptaráð segir afnám samræmdra árangursmælikvarða hafa leitt til brots á jafnræði meðal grunnskólabarna þegar kemur að einkunnagjöf. Ráðið bendir m.a. á að samanburður á niðurstöðum könnunarprófa sem Verslunarskólinn leggur fyrir nemendur sína í upphafi skólaárs og skólaeinkunna úr grunnskólum hafi leitt í ljós misræmi í skólaeinkunnum grunnskóla.

„Nemendur sumra grunnskóla búa yfir góðri færni í samræmi við skólaeinkunnir sínar, en nemendur annarra grunnskóla eru veikari á sama sviði þrátt fyrir að vera með sömu skólaeinkunnir,“ segir Viðskiptaráð.

„Þetta sýnir að jafnræðis er ekki gætt í íslenskum grunnskólum. Með notkun ósamanburðarhæfra einkunna við val á milli umsækjenda um framhaldsskólavist er börnum mismunað eftir búsetu. Þannig getur umfang einkunnaverðbólgu í hverfisskóla barns ráðið tækifærum þess til framhaldsnáms.“

Viðskiptaráð gagnrýnir í þeim efnum „leyndarhyggju“ sem einkennt hafi störf mennta- og barnamálaráðuneytisins þegar kemur að námsmati. Ráðuneytið og stofnanir þess hafi hvorki birt sundurliðaðar niðurstöður PISAmælinga né samræmdra könnunarprófa niður á einstaka grunnskóla eða sveitarfélög um árabil.

Engin yfirsýn næstu tvö skólaárin

Í umsögninni dregur ráðið einnig í efa skynsemi þess að taka upp svokallaðan „Matsferil“ sem á að leysa könnunarprófin af hólmi.

Matsferlinum er lýst í áformaskjali ráðuneytisins sem „heildstæðu safni matstækja í mörgum námsgreinum sem í grundvallaratriðum hafi sama markmið og samræmd könnunarpróf“. Útlit sé fyrir að matsferillinn verði ekki tilbúinn fyrr en a.m.k. haustið 2026.

„Áform ráðuneytisins virðast því að vera að reka íslenskt grunnskólakerfi án nokkurrar yfirsýnar næstu tvö skólaár,“ segir í umsögn VÍ.