Íþrótta- og útivistafatnaðarverslunin Útilíf hefur fest kaup á skíða- og útivistarversluninni Alparnir.
„Með kaupunum styrkjum við stöðu Útilífs enn frekar á markaðinum og aukum úrval okkar af fremstu útivistar- og skíðavörumerkjum heims auk þess að fá til liðs við okkur starfsfólk með mikla þekkingu og reynslu frá Ölpunum,” segir í tilkynningu frá Útilíf.
Útivistarverslanirnar sameinast í september undir merkjum Útilífs.
„Útilíf á sér sterka sögu og fagnar 50 ára afmæli á næsta ári og við sjáum mikil tækifæri í því að byggja á þeirri sterku arfleifð sem Útilíf býr yfir með nýjum og nútímalegum áherslum og kaupin á Ölpunum eru spennandi hluti af þeirri vegferð,” segir Elín Tinna Logadóttir, framkvæmdastjóri Útilífs.
Með kaupunum fylgir meðal annars umboðið á Íslandi fyrir merkin Salomon og Atomic.
Styrkir getu Alpana
Í tilkynningu segist Brynjar Hafþórsson, framkvæmdastjóri Alpanna, fullur tilhlökkunar fyrir að sameinast jafn rótgrónu og sterku fyrirtæki og Útilífi.
„Það mun eingöngu styrkja getu okkar til að bjóða upp á þá framúrskarandi þjónustu og hágæða vörur sem Alparnir eru þekktir fyrir,“ segir Brynjar.
Útilíf rekur í dag þrjár verslanir á Íslandi; útivistarverslun Skeifunni 11, íþróttavöruverslanir í Smáralind og Kringlunni ásamt sérverslun The North Face á Hafnartorgi.
Verslun Alpana er til húsa í Faxafeni í Skeifunni.