Evrópusambandið hefur ákveðið að útiloka vopnaframleiðendur frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Tyrklandi frá nýjum 150 milljarða evra varnarsjóði nema stjórnvöld þessara ríkja undirriti varnarsamninga við sambandið.

Samkvæmt Financial Times er þetta stórsigur fyrir Frakkland og önnur ríki sem hafa lagt áherslu á að Evrópa verði sjálfstæðari í varnarmálum og ekki jafn háð Bandaríkjunum sem vopnabirgja.

Samkvæmt embættismönnum ESB verður sjóðurinn aðeins opinn fyrir evrópsk varnarfyrirtæki og þau fyrirtæki í þriðju löndum sem hafa gert varnarsamninga við sambandið.

Reglurnar munu einnig útiloka öll háþróuð vopnakerfi þar sem þriðja ríki hefur „hönnunaryfirráð“ eða takmarkanir á smíði og notkun þeirra.

Þetta þýðir að bandaríska Patriot-loftvarnakerfið, framleitt af RTX, og önnur vopnakerfi sem lúta bandarískum útflutningsreglum verða ekki gjaldgeng í sjóðinn.

Sem fyrr segir er þessi ákvörðun sigur fyrir Frakkland sem hefur kallað eftir „Kaupum evrópska“ stefnu í varnarmálum.

Óvissa um langtímasamstarf við Bandaríkin, sérstaklega í ljósi ummæla Donalds Trump, hefur ýtt undir þessa stefnu.

Minna en þriðjungur af vörukostnaði má renna til fyrirtækja utan ESB, nema þau séu frá Noregi, Úkraínu eða öðrum ríkjum sem ESB hefur tryggt samstarf við.

„Það væri vandamál ef búnaður sem keyptur er af ríkjum Evrópusambandsins mætti ekki vera notaður vegna mótmæla frá þriðja ríki,“ segir einn embættismaður ESB við FT.

Bretland stendur höllum fæti

Bresk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir því að fá aðgang að sjóðnum í ljósi mikilvægrar þátttöku breskra fyrirtækja í evrópskri vopnaframleiðslu, sérstaklega í samstarfi við Ítalíu og Svíþjóð.

Breskir framleiðendur, á borð við BAE Systems og Babcock International, eiga í náinni samvinnu við evrópsk fyrirtæki og munu líklega finna fyrir afleiðingum útilokunarinnar.

Til þess að fá aðgang að sjóðnum þurfa Bandaríkin, Bretland og Tyrkland að undirrita varnarsamninga við ESB. Viðræður eru hafnar milli Bretlands og ESB um slíkan samning en hafa verið tafsamdar vegna annarra viðkvæmra málefna, þar á meðal sjávarútvegs og innflytjendamála.

„Við erum reiðubúin til að vinna að sameiginlegri evrópskri öryggisstefnu til að koma í veg fyrir sundrungu í vopnamarkaði Evrópu,“ segir talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar.

Áhrif á evrópskan varnarmálamarkað

Ákvörðunin um að útiloka Bandaríkin, Bretland og Tyrkland mun líklega valda talsverðum áskorunum fyrir stór evrópsk varnarfyrirtæki sem hafa nán tengsl við framleiðendur í þessum löndum.

Áður hafa Þýskaland, Ítalía, Svíþjóð og Holland andmælt því að takmarka varnarsamstarf við ESB-ríki eingöngu, þar sem þessi lönd eiga mikilla hagsmuna að gæta í samstarfi við bandarísk, bresk og tyrknesk fyrirtæki.

Samkvæmt nýju reglunum geta ESB-ríki hins vegar keypt vörur sem innihalda íhluti frá Noregi, Suður-Kóreu, Japan, Albaníu, Moldóvu, Norður-Makedóníu og Úkraínu.

Tillagan þarf að hljóta samþykki meirihluta ESB-ríkja áður en hún tekur gildi.

Ljóst er að ákvörðunin mun valda spennu í samskiptum ESB við Bandaríkin og Bretland á sviði varnarmála, en stuðningsmenn breytinganna telja hana nauðsynlega til að tryggja sjálfstæði Evrópu í öryggismálum.