Yfirvöld í Kína hafa tilkynnt um að þau hyggist hækka viðbótartolla á bandarískar vörur úr 34% í 84% frá og með morgundeginum. Það samsvarar þeim viðbótartollum sem ríkisstjórn Trumps hefur lagt á innfluttar vörur frá Kína.

Kínversk stjórnvöld tilkynntu um þetta aðeins nokkrum klukkutímum eftir að nýjustu tollar Trump ríkisstjórnarinnar gegn Kína tóku gildi. Alls hefur bandaríska ríkisstjórnin nú hækkað tolla á Kína upp í 104%.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, harmaði ákvörðun kínverskra stjórnvalda og útilokaði ekki að fjarlægja kínversk félög af bandarískum hlutabréfamörkuðum. Hann sagði í viðtali við Fox Business að allir kostir væru nú til skoðunar.

„Ég tel óheppilegt að Kínverjarnir vilji raunverulega ekki koma og ræða við okkur vegna þess að það eru þeir eru mestu brotamennirnir í alþjóðlega viðskiptakerfinu,“ sagði Bessent.

Hann sagði önnur viðskiptaríki sem Bandaríkin hafa verið í viðræðum við hafa viljað ræða um hvernig ná megi fram breytingum á viðskiptastefnu Kína.

„Það er stór sigurinn. Bandaríkin eru að reyna að ná auknu jafnvægi í átt að framleiðslu. Kína þarf að aðlagast í átt að aukinni neyslu.“

Bessent varaði stjórnvöld í Kína einnig við því að fella niður gengi júansins til að bregðast við nýju tollunum. Hann sagði slíka gengisfellingu samsvara skatti á restina af heiminum og önnur ríki þyrftu þá að svara því með enn hærri tollum.