Viðskiptablaðið greindi í gær frá tillögum Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar um aðgerðir til að takmarka fasteignakaup einstaklinga sem koma utan Evrópusambandsins, ekki síst frá Bretlandi.

Meðal aðgerða er allt að 100% skattur sem leggst ofan á kaupverð fasteigna. Financial Times og spænskir fjölmiðlar hafa m.a. fjallað um málið.

Benti forsætisráðherrann á að um 27 þúsund fasteignir á Spáni hefðu verið keyptar af íbúum utan Evrópusambandsins á hverju ári, með von um að hagnast fjárhagslega á kaupunum.

Þannig keyptu útlendingar, þar með taldir EES-borgarar, 24.700 fasteignir á þriðja ársfjórðungi 2024, sem er 15% allra fasteignaviðskipta á tímabilinu.

Antonio de la Fuente, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Colliers, segir tillögurnar ekki líklegar til þess að hafa mikil áhrif á spennu á húsnæðismarkaði. 27 þúsund fasteignir væru „dropi í hafið“ miðað við þær 26 milljónir fasteigna sem eru á Spáni.

Hann bætir við að óvissan sem skapast í kringum tillögurnar gæti orðið til þess að bæði einstaklingar og stofnanafjárfestar leiti í auknum mæli til annarra landa til að fjárfesta í fasteignum.

Tillögur Sánchez eiga þó enn eftir að fá samþykki spænska þingsins og hefur forsætisráðherrann í gegnum tíðina átt í erfiðleikum með að ná málum í gegnum þingið. Eftir kosningarnar 2023 myndaði Sánchez minnihlutastjórn með stuðningi fjölmargra smáflokka.