Samkvæmt greiningu á umfangi glæpa erlendra ríkisborgara í Bretlandi eru erlendir ríkisborgarar 3,5 sinnum líklegri að verða handteknir fyrir kynferðisbrot en breskir ríkisborgarar. The Telegraph fjallaði um málið í gærkvöldi.
Tölurnar byggja á greiningu bresku hugveitunnar Centre for Migration Control. Greiningin byggir á upplýsingum frá lögreglu, innanríkisráðuneytinu og bresku hagstofunni en stór hluti upplýsinganna fengust á grundvelli bresku upplýsingalaganna.
Samkvæmt þeim handtók breska lögreglan yfir 9.000 erlenda ríkisborgara fyrir kynferðisbrot á fyrstu tíu mánuðum ársins 2024 í 41 af 43 lögregluumdæmum í Englandi og Wales.
Þetta er er 26,1% af heildarhandtökum fyrir kynferðisbrot, sem eru áætlaðar um 35.000. Erlendir ríkisborgarar í Bretlandi eru 5,5 milljónir en breskir ríkisborgarar eru 53,5 milljónir samkvæmt bresku hagstofunni. Erlendir ríkisborgarar eru því 9% íbúa landsins.
Tvisvar sinnum líklegri vegna allra brota
Hvað varðar öll brot voru erlendir ríkisborgarar handteknir tvöfalt oftar en Bretar, með samtals 131.000 handtökur frá janúar til október 2024. Þó að útlendingar séu aðeins 9% af íbúafjölda landsins, stóðu voru þeir viðriðnir 16,1% allra handtaka.
Samkvæmt greiningunni voru útlendingar handteknir tæplega tvöfalt oftar en Bretar á fyrstu tíu mánuðum ársins 2024, með 23,9 handtökur á hverja 1.000 útlendinga samanborið við 12 handtökur á hverja 1.000 Breta.
Enn hærra í kynferðisbrotamálum
Útlendingar voru 3,5 sinnum líklegri til að vera handteknir fyrir kynferðisbrot en þeir sem eru með breskan ríkisborgararétt.
Af 9.055 handtökum erlendra ríkisborgara vegna meintra kynferðisbrota samsvarar það 164,6 handtökum á hverja 100.000 íbúa, samanborið við 25.680 handtökur Breta, eða 48 á hverja 100.000.
Í sumum lögregluumdæmum voru handtökur útlendinga fyrir kynferðisbrot sérstaklega háar. Í City of London var þetta hlutfall 66,9%, í Derbyshire 44,8% og í West Midlands 38,8%.
Þegar handtökur vegna kynferðisbrota voru skoðaðar í hlutfalli við íbúafjölda höfðu Albanir hæstu tíðnina með 209,8 handtökur á hverja 1.000 íbúa, næstir voru Afganar með 106,9, Írakar 92,9, Alsírbúar 72,7, Marokkómenn 70 og Sómalíumenn 64,6. Tíðnin fyrir breska ríkisborgara var 12.
Stjórnvöld birta gögn um þjóðerni þeirra sem eru í breskum fangelsum, þar sem Albanir eru fjölmennastir og telja 13% allra erlendra fanga.
Ásakanir um leynd og krafa um opinbera rannsókn
Greiningin kemur á sama tíma og ásakanir um „stofnanalega yfirhylmingu“ vegna birtingar á glæpatíðni innflytjenda hafa komið fram. Á sama tíma eykst krafa um opinbera rannsókn á kynferðisbrotamálum þar sem þjóðerni grunaðra var talið hafa verið leynt.
Áhrifamiklir þingmenn úr Íhaldsflokknum hafa hvatt bæði ríkisstjórnir Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins til að birta gögn, líkt og gert er í Danmörku og sumum ríkjum Bandaríkjanna, sem myndu gera kleift að setja saman nákvæmari upplýsingar um glæpatíðni innflytjenda eftir þjóðerni.
Meðal gagnrýnenda er Robert Jenrick, skuggadómsmálaráðherra og þingmaður Íhaldsflokksins. Í samtali við The Telegraph sagði hann:
Til að koma á innflytjenda- og réttarkerfi sem þjónar hagsmunum bresks almennings þurfa þingmenn þessar upplýsingar. Það er ekki ein einasta góð ástæða fyrir því að dómsmálaráðuneytið birti ekki þessar upplýsingar reglulega í heild sinni.