Hluthafar samfélagsmiðilsins Twitter munu samþykkja 44 milljarða dala yfirtökutilboð Elon Musk, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal. Því stefnir í að dómstóll í Delaware muni ráða örlögum um hvort kaup auðmannsins, sem reynir nú að falla frá viðskiptunum, fari í gegn.

Atkvæði sem þegar hafa verið greidd fyrir hluthafafund Twitter í dag þar sem yfirtökutilboðið verður borið undir hluthafa gefa til kynna að stór meirihluti muni samþykkja tilboðið, að sögn heimildarmanna.

Elon Musk, sem er stærsti hluthafi Twitter með liðlega 10% hlut, var ekki búinn að kjósa þegar frétt WSJ fór í loftið seinnipartinn í gær. Talið er ólíklegt að Musk taki þátt í kosningunni sökum þess að hann heldur því fram að Twitter hafi brotið gegn ákvæðum yfirtökusamningsins. Ekki er þörf á samþykki Musk ef nógu margir hluthafar styðja tillöguna.

Heimildir WSJ herma að aðrir stórir hluthafar Twitter, þar á meðal sjóðstjórar vísitölusjóða sem fara samtals með ríflega 20% hlut í félaginu, muni greiða atkvæði með tillögunni.

Musk samþykkti í apríl síðastliðnum að greiða 54,2 dali á hlut fyrir Twitter. Hlutabréfaverð félagsins hefur verið töluvert undir kaupgenginu eftir að Musk sagði í júní að samkomulagið væri komið á ís. Skömmu síðar sagðist hann ætla að hætta við kaupin og bar fyrir sig að samfélagsmiðilinn hefði ekki afhent nægjanleg gögn um fjölda gervireikninga. Gengi Twitter stóð í 41,4 dölum við lokun markaða í gær.

Twitter höfðaði mál gegn Musk um miðjan júlí og fór fram á að hann virði kauptilboðið. Twitter og Musk fara fyrir dómstól í Delaware-ríki í Bandaríkjunum í næsta mánuði.