Icelandair skilaði 20,2 milljóna dala tapi á árinu, sem nemur tæplega 2,8 milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 11,2 milljónir dala árið áður, sem nemur 1,5 milljörðum króna.

Flugfélagið flutti tæplega 4,7 milljónir farþega á árinu 2024 og nam tap félagsins af hverjum farþega 596 krónum.

Einingatekjur Icelandair lækkuðu á milli ára, voru 7,9 Bandaríkjasent miðað við 8,4 sent árið áður. Einingakostnaður lækkaði þó einnig milli ára – þó minna, var 8,2 Bandaríkjasent í fyrra samanborið við 8,4 sent árið 2023. Þá stóð einingakostnaður án eldsneytis í stað milli ára, nam 6,2 sentum.

Þar af leiðandi tapaði Icelandair þremur sentum á hvern floginn sætiskílómetra. Á sama tíma jókst framboð sætiskílómetra (ASK) um 10% milli ára – nam 17,1 milljón sætiskílómetra samanborið við 15,6 milljónir árið áður.

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs segir í samtali við Viðskiptablaðið að hörð samkeppni bandarískra flugfélaga yfir Norður-Atlantshafið hafi sett þrýsting á fargjöld Icelandair og þ.a.l. leitt til þess að einingatekjur félagsins drógust saman milli ára. Árið 2025 líti þó vel út hvað varðar eftirspurn milli Norður-Ameríku og Evrópu, sem og á ferðum innan Evrópu og til og frá Íslandi.

„Skortur á fluggetu evrópskra flugfélaga, m.a. vegna seinkunar á afhendingum véla frá Airbus og Boeing, ásamt vandamálum tengdum GTF-hreyflunum frá Pratt & Whitney, munu koma Icelandair til góða og ættu að leiða til aðeins hærri einingatekna milli ára.“

Útlit fyrir að Icelandair skili hagnaði á árinu

Icelandair setti á laggirnar „ONE-áætlunina“ á fyrri hluta árs 2024 sem snýst í stuttu máli um að draga úr kostnaði og auka tekjur. Segir í skýrslu stjórnar að nú þegar megi sjá afrakstur áætlunarinnar.

Hans segir útlit fyrir að Icelandair skili hagnaði á árinu 2025, að því gefnu að félagið haldi einingakostnaði í skefjum, auki einingatekjur milli ára og að engir óvenjulegir geópólitískir atburðir eigi sér stað.

„Ef Icelandair tekst ekki að halda einingakostnaði undir einingatekjum á árinu gæti félagið skilað tapi á árinu. Félagið gæti íhugað að verja sig fyrir verðsveiflum á losunarheimildum, eins og Ryanair sem hefur tryggt sér losunarheimildir á 61 evru á hvert tonn fyrir árið 2026.

Svo þarf að hafa í huga að kröfur ESB á árinu 2025 um a.m.k. 2% íblöndunar sjálfbærs þotueldsneytis (SAF) í hefðbundið þotueldsneyti, munu auka eldsneytiskostnað flugfélaga.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.