Peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands á­kvað að lækka stýri­vexti í morgun í fyrsta sinn síðan í nóvember 2020.

Að mati Jóns Bjarka Bents­sonar, aðal­hag­fræðings Ís­lands­banka, kom á­kvörðun nefndarinnar nokkuð á ó­vart en hún var á skjön við spár bankanna.

Greiningar­deild Ís­lands­banka spáir því að vextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun ráðast af verð­bólgu- og efna­hags­þróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentu­skref eða stærra.

Peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands á­kvað að lækka stýri­vexti í morgun í fyrsta sinn síðan í nóvember 2020.

Að mati Jóns Bjarka Bents­sonar, aðal­hag­fræðings Ís­lands­banka, kom á­kvörðun nefndarinnar nokkuð á ó­vart en hún var á skjön við spár bankanna.

Greiningar­deild Ís­lands­banka spáir því að vextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun ráðast af verð­bólgu- og efna­hags­þróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentu­skref eða stærra.

„Við spáðum því að þrátt fyrir ó­breytta vexti yrði því gefið undir fótinn að vaxta­lækkunar­ferlið væri í start­holunum. Þegar við spáðum ó­breyttum vöxtum horfðum við ekki síst til þess hversu harður tónn var sleginn af nefndinni í ágúst, þar sem mögu­leikinn á vaxta­lækkun var ekki ræddur yfir höfuð. Á­kvörðunin er þó að okkar mati studd gildum rökum og tíma­bært að hefja lækkun vaxta,“ skrifar Jón Bjarki á vef Ís­lands­banka.

Á markaði voru skiptar skoðanir á því hvort vextir yrðu lækkaðir eða ó­breyttir en vaxta­ferlar skulda­bréfa síðustu daga endur­spegluðu tals­verðar líkur á því að vextir yrðu lækkaðir að þessu sinni.

Að mati Jóns Bjarka var tónninn í yfir­lýsingu peninga­stefnu­nefndar fremur var­færinn og bendir til þess að frekar verði farið hægt í sakirnar næsta kastið og raun­vöxtum haldið fremur háum.

„Spurningu um hæfi­legt að­halds­stig svöruðu stjórn­endur bankans með því að nefndin væri á­nægð með nú­verandi að­halds­stig. Nægi­legt að­hald væri til að ná verð­bólgunni í mark­mið innan á­sættan­legs tíma. Með 25 punkta lækkunar­skrefi væri verið að fara af stað af var­kárni í vaxta­lækkunar­ferli og ef bak­slag yrði í hjöðnun verð­bólgu og/eða kólnun hag­kerfisins myndi það ferli stöðvast. Þótt sú leið hefði einnig verið mögu­leg að bíða eftir ó­tví­ræðari merkjum að þessu leyti hefði nefndin talið far­sælla að byrja með smáu skrefi. Undir það getum við tekið,“ skrifar Jón Bjarki.

Rann­veig Sigurðar­dóttir, vara­seðla­banka­stjóri peninga­stefnu, sagði á blaða­manna­fundinum í dag að ekki hefði endi­lega mikið breyst frá því að all­harður tónn var sleginn við ágús­tá­kvörðun peninga­stefnu­nefndar.

Ás­geir var því ó­sam­mála og taldi tals­verðar breytingar hafa orðið á tíma­bilinu. Þá kom fram í máli þeirra Ás­geirs og Rann­veigar að nefndar­menn horfðu með mis­munandi hætti á hina ýmsu á­hrifa­þætti og gæfu þeim mis­mikið vægi við á­kvörðun nefndarinnar.

„Við teljum okkur greina af þessu að skoðanir hafi verið skiptar innan peninga­stefnu­nefndar um á­kvörðunina að þessu sinni. Kæmi okkur ekki á ó­vart að það myndi koma á daginn að ein­hverjir nefndar­manna hafi lagst gegn lækkun vaxta að þessu sinni, en það skýrist þegar fundar­gerð vaxta­á­kvörðunar­fundanna nú verður birt að tveimur vikum liðnum,“ skrifar Jón Bjarki

„Vaxta­lækkunar­ferli er hafið en peninga­stefnu­nefndin mun vilja stýra lækkunar­taktinum næsta kastið með þeim hætti að raun­vextir lækki ekki veru­lega. Það er því út­lit fyrir að stýri­vextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun að okkar mati ráðast af verð­bólgu- og efna­hags­þróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentu­skref eða stærra skref tekið,“ skrifar Jón Bjarki.